Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir athyglisvert að heyra að u.þ.b. 6 milljónir einstaklinga frá Venesúela búi í löndum Suður-Ameríku. Það er auðvitað athyglisvert að ekki sé verið að bíða í löngum biðröðum eftir að komast í flugvél og komast til Íslands þó að einhver hundruð einstaklinga, eins og hv. þingmaður rakti svo vel, búi kannski við þær aðstæður að geta farið upp í flugvél og flogið til Evrópu. Margir geta það kannski ekki, eiga kannski þann eina kost að ganga yfir landamærin til næsta lands. Þannig er það bara víða. Þannig ferðast margir flóttamenn og eru t.d. í Miðausturlöndum, farandi á milli landa. Flóttamenn frá Afganistan — Tyrkland, Líbía og öll þessi lönd eru full af flóttafólki frá stríðshrjáðum löndum.

Það að kærunefndin hafi tekið þessa afstöðu sem hv. þingmaður lýsti hér, um að banna að verið væri að meina flóttafólki frá Venesúela að koma hingað til lands, er auðvitað bara í samræmi við alþjóðasamninga sem við Íslendingar höfum undirritað. Okkur ber að fara eftir því sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna er að gera. Við erum þjóð í samfélagi þjóða og við eigum auðvitað að vera þátttakendur í því. Mér finnst vont að hlusta á það að fólk sé að smygla sér inn í landið okkar, að fólk komi hingað og reyni að smygla sér inn á einhvern hátt. (Forseti hringir.) Mér þykir það sérstakt að það séu svona margir frá Venesúela en ég skil það þegar ég bara gúgla smá.