Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru væntanlega ríflega 100 milljónir manna á flótta í heiminum í dag og um það bil helmingurinn af þeim hópi eru börn. Við sem búum í þessu landi og þykir vænt um börnin okkar og reynum að gera allt sem við getum fyrir þau — maður fær í magann við þá tilhugsun að lítil börn séu á bátum á Miðjarðarhafinu, eða á hvaða hafi sem er, að reyna að komast í skjól í öðrum löndum undan stríði eða öðrum þeim hörmungum sem fólk er að upplifa. Ég veit að hv. þingmaður hefur unnið mikið í fátækari löndum við þróunaraðstoð, þekkir kannski stöðu fólks utan okkar verndaða umhverfis betur en margur hver og ég velti því fyrir mér af því að hér hefur verið talað um mannúð: Erum við að nálgast þennan málaflokk af einhverri mannúð þegar við berum fatlaðan mann í hjólastól inn í bíl eða sendum lítil börn úr landi sem eru komin í skóla og eiga orðið vini og vinkonur hér á Íslandi? Erum við að sýna einhverja manngæsku þegar við förum þannig að? Þegar við fáum starfsmenn flugvalla til að lýsa ljósum framan í blaðamenn svo að þeir geti ekki tekið myndir þannig að fólk átti sig ekki á hvaða vinnubrögð er verið að viðhafa? Ég hef velt því fyrir mér: Getum við með einhverjum hætti nálgast þennan málaflokk á einhvern annan hátt en verið er að gera?