Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:02]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að leggja orð í belg um þetta mál. Ég sat í allsherjarnefnd fyrir einhverjum tveimur árum, að mig minnir. Þá var frumvarp frá dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um útlendingamál þar til meðferðar sem ekki varð að lögum. Mig langaði kannski til að nefna, af því að skilvirkni hefur nú verið leiðarstef Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar í þessu máli, hversu skilvirk þau vinnubrögð eru að núna erum við í fimmta sinn með frumvarp til útlendingalaga til meðferðar frá dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Í öll skiptin hefur málið fengið fína og góða umfjöllun í allsherjarnefnd. Í öll skiptin hefur komið fram ígrunduð og hvöss gagnrýni á málið án þess að manni hafi sýnst, a.m.k. á fyrri stigum, að sú gagnrýni hafi leitt til breytinga á málinu og aftur erum við að ræða þetta mál hér. Ég hugsa að tímanum hefði getað verið betur varið, kannski ekki síst með því að hlusta betur á þá fagaðila sem hafa verið að leggja orð í belg um þetta mál og þennan málaflokk.

Ég er sammála því sem ég heyrði framsögumann málsins segja hér í einni ræðunni, að það eigi að horfa á stóru myndina. Í samhengi við þann langa tíma sem farið hefur í að vinna þetta mál þá hefur gjarnan verið vísað til þess að útlendingalögin eigi að fjalla um fólk sem sé í raunverulegri þörf og sé raunverulega á flótta og við þurfum frumvörp til að taka á fólki sem kemur erlendis frá og er kannski í leit að betra lífi en er ekki á eiginlegum flótta, að það megi rýmka atvinnulöggjöf í því skyni o.s.frv. Í öll þau ár sem við höfum verið að ræða útlendingafrumvarpið þá höfum við hlustað á þessar röksemdir meiri hlutans en aldrei hafa þessi frumvörp komið fram og hið sama er uppi á teningnum núna. Það liggur ekkert frumvarp fyrir af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans um að rýmka atvinnuréttindi útlendinga, mögulega þá í því skyni að létta á kerfinu af þessum enda hvað varðar fólk sem er að koma hingað á flótta. Því finnst mér holur hljómur í því að tala um að horfa eigi á stóru myndina og gera svo aldrei annað en að leggja þetta frumvarp í mismunandi myndum á borðið. Ég skil ekki hvers vegna tími þingsins hefur ekki verið betur nýttur en svo að eftir allan þennan tíma liggi ekki fyrir önnur frumvörp, t.d. hvað það varðar að veita atvinnuréttindi til útlendinga sem koma utan EES-svæðisins.

Hér hefur mikið verið rætt um kerfið og kostnaðinn. Það er umræða sem hefur staðið yfir árum saman, en ég sakna þess að stjórnarliðar ræði ekki um tækifærin í þessum málaflokki og um þarfir íslensks samfélags. Samhliða þessu máli og jafnvel í einum pakka hefði ég viljað sjá heildstæða aðgerðaáætlun í málefnum fólks af erlendum uppruna. Ég hefði viljað sjá heildstæða innflytjendastefnu því allt helst þetta í hendur, hvort sem við erum að tala um fólk sem kemur til Íslands eftir að hafa verið á flótta eða fólk sem kemur hingað einfaldlega til að sækja sér betra líf. Allir þessir þræðir tengjast og því spyr ég og beini þessum spurningum auðvitað til meiri hlutans: Hvar eru aðgerðirnar og umræðan um stjórnsýslu innflytjendamála? Hvar er umræðan af hálfu ríkisstjórnarinnar um samstarf ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífsins til að samræma móttöku? Hvar er umræðan um tungumálakennslu og aðgerðir til að styrkja fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu? Hvar er umræðan um þarfir íslensks atvinnulífs?

Ég átta mig á því að það eru ákveðnir þættir sem snúa sérstaklega að þörfum fólks á flótta. Þar gilda sérstök sjónarmið en þá segi ég aftur að ríkisstjórnin hefur haft heilt kjörtímabil til að smíða heildstæða stefnu sem tryggir að allir þessir þræðir fái að tengjast. Það er talað um að rýmka rétt fólks til að koma hingað vegna atvinnu en lítið er gert. Á liðnum árum hefur mér fundist að öll nálgunin og hugmyndafræðin af hálfu ríkisstjórnarinnar lúti að því hvernig megi þrengja rétt fólks á flótta til að sækja hingað til lands. Þar finnst mér mega minna á að fólk á flótta sem fær hér alþjóðlega vernd er líka innflytjendur og þess vegna eigum við að móta okkur heildstæða innflytjendastefnu og löggjöf sem tekur annars veg mið af stöðu mála í heiminum og þörfum íslensks samfélags.

Það er mikið rætt um skilvirknina og ég tek undir að auðvitað er mikilvægt að kerfið sé skilvirkt og vinni fljótt og faglega. En ég er ekki sannfærð um að lausnirnar hvað skilvirkni varðar séu þær sem þær ættu að vera og mér hefur fundist sérstakt, af því að ég er áhugamanneskja um að kerfin vinni á eðlilegum hraða, að hér í þessum málaflokki tala stjórnarliðar mikið um skilvirkni málsmeðferðartíma — og ég er sammála um mikilvægið því það er einfaldlega réttur fólks að fá úrlausn sinna mála á skjótan og faglegan máta — en þetta er gegnumgangandi vandamál í þeim undirstofnunum sem heyra undir dómsmálaráðuneytið. Ég nefni lögregluna, ákæruvaldið og dómstólana. Skömmu fyrir jól fékk ég svar við skriflegri fyrirspurn frá dómsmálaráðherra varðandi biðtíma eftir afplánun í fangelsum landsins. Því mættu flokkar sem hafa áhyggjur af skilvirkni horfa á önnur kerfi en bara þetta. Ég nefni þetta af því að það er sannarlega ekki einsdæmi að kerfið megi vinna hraðar. Ég á við að það er ekki einsdæmi að útlendingakerfið, sem er smíðað utan um útlendingalögin, sé hægfara. En maður heyrir stjórnarliða ekki oft viðra áhyggjur sínar af öðrum kerfum en þessu.

Forseti. Rannsóknir sýna að íslenskur vinnumarkaður þarfnast starfsfólks í ýmiss konar störf, bæði störf sem krefjast sérhæfingar og menntunar en líka ófaglærðs fólks. Dæmin eru t.d. nærtæk úr heilbrigðiskerfinu og því ætti að vera forgangsmál og forgangsatriði að laða fólk hingað til lands, og það eru tækifæri í þeirri hugsun og nálgun. Engu að síður er staðan sú sem ég nefndi hér áðan, að eina frumvarp ríkisstjórnarinnar sem lýtur að útlendingum er þetta. Við fáum ekki frumvörpin sem þau tala um að séu á döfinni eða í pípunum, frumvörpin um aukin atvinnuréttindi fólks. Í þessu frumvarpi sjáum við skerðingar frá núverandi rétti í lögum og ég nefni sem dæmi réttinn til fjölskyldusameiningar.

Mér fannst líka áhugavert á sínum tíma, þegar ég sat í allsherjar- og menntamálanefnd, hversu harðorðar og berorðar umsagnir við frumvarpið voru. Þegar ég skautaði hratt yfir umsagnirnar núna sá ég að lítið hefur breyst í þeim efnum. Umsagnir við málið fela í sér harða gagnrýni á þetta frumvarp og mér finnst sérstakt hversu lítið stjórnarliðar ætla að staldra við þann punkt. Hvernig má það vera að nánast allir umsagnaraðilar fetti fingur út í frumvarpið? Ég sá að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skrifaði umsögn um frumvarpið. Þar er einmitt vísað til fyrri umsagna stofnunarinnar við eldri frumvörp og ég fæ ekki betur séð en að umsögnin beri með sér að ekki hafi verið brugðist við tilmælum í umsögn stofnunarinnar.

Ég staldraði líka við umsögn embættis landlæknis sem talar um það atriði að svipta eigi fólk réttinum til heilbrigðisþjónustu. Þar er því flaggað, sem ég tek undir, að heilbrigðisþjónusta hljóti að vera skilgreind sem grundvallarréttur og grundvallarmannréttindi. Ég er ekki hingað komin til að fara yfir einstök efnisatriði þessa frumvarps heldur situr það í mér hvernig farið hefur verið með tímann. Þar held ég að ríkisstjórnarflokkarnir verði að líta í eigin barm. Ef réttur er borinn á borð kvöld eftir kvöld alltaf með þeim viðtökunum að hann bragðist ekki vel, þá er ástæða fyrir kokkinn að líta inn á við. Við erum meðvituð um að það eru tugir milljóna manna á heiminum í dag sem eru á flótta. Á Íslandi, eins og annars staðar, eru það nú samt sögurnar af einstaklingunum sem snerta okkur mest og fréttaflutningurinn af sorglegum sögum fólks, fullorðinna og barna. Þar fáum við gjarnan að heyra að ekki sé hægt að tjá sig um einstök mál ,sem er vissulega alveg rétt, en þar gleymist alltaf að einstöku málin spegla kerfið. Þar finnst mér stundum líka gleymast að kerfið speglar pólitík.

Þetta frumvarp er auðvitað rammpólitískt og mér hefur sýnst, eða ekki sýnst — það var þannig þegar maður skoðaði frumvarpið á sínum tíma að það var augljóst að reglurnar voru smíðaðar í kringum þá pólitík að hér eigi að vera erfitt að sækja um vernd. Mér hefur sýnst, á umræðunni hér í þingsalnum núna, að það hafi ekki breyst. Mér finnst og hefur fundist áhyggjuefni hvert íslensk stjórnvöld telja boðlegt að endursenda fólk. Þegar ég las greinargerðina á sínum tíma þá man ég eftir að hafa hugsað með mér, þegar ég sá hve mikil áhersla var lögð á einfaldari málsmeðferð og skilvirkari gagnvart því fólki sem þá þegar hafði hlotið alþjóðlega vernd, hvort það væri hið eina ákall almennings í landinu að kerfið væri einfalt og skilvirkt eða hvort fólk væri kannski frekar að kalla eftir því að kerfið vinni faglega og með mannúð að leiðarljósi.

Ég hef að ég held, í öllum þeim ræðum sem ég hef flutt um þetta frumvarp og þennan málaflokk, vísað í einstakt dæmi; sögu sem birtist í fjölmiðlum og hitti mig fyrir einfaldlega vegna þess að þar var sögð saga sýrlenskrar konu sem starfaði í íslenskum leikskóla og leikskóla sem yngsta dóttir mín hafði gengið í. Henni var vísað til Grikklands vegna þess að hún hafði þegar hlotið alþjóðlega vernd þar. Íslensk yfirvöld höfnuðu því að taka mál hennar til efnismeðferðar þar sem Grikkland er sagt öruggt ríki fyrir flóttamenn og í fréttum á vefmiðlum — þessi frétt sem ég vísa til var á mbl.is — kom fram að þessi kona hefði unnið á leikskóla í rúmlega hálft ár þegar hún hvarf þaðan. Að sögn Maríu Sighvatsdóttir aðstoðarleikskólastjóra hafði konan náð mjög vel til barnanna og, með leyfi forseta, var henni lýst með þessum hætti:

„Hún hefur ofboðslega góða nærveru, er áhugasöm og lagði sig mikið fram við að kynnast starfinu. Það var gott að vinna með henni, ég lærði mjög margt af henni. Hún kenndi börnunum og lærði svo af okkur og þeim líka. Þannig að allir græddu á vinnu hennar hér. Hennar er virkilega sárt saknað.“

Eins og ég segi hef ég margsinnis nefnt þessa sögu og viðurkenni að hún situr í mér. Þá þarf að hugsa aðeins um þessi málalok, sem eru ekki aðeins sorgleg fyrir þá konu sem um ræðir. Þegar við horfum aftur á íslenska samfélagið og þarfir þess þá má spyrja hvort staðan sé sú í Reykjavík að það þurfi að fækka starfsfólki í leikskólum. Nei. Var staðan sú að konan vildi hverfa úr starfi? Nei, hún vildi helst halda áfram að vinna með börnunum. Gekk henni illa í starfi? Nei, hún var mikils metin af starfsfólki, börnunum og foreldrum barnanna. Í fréttinni kemur fram að börnin kvöddu hana öll, hvert og eitt, með því að faðma hana en án þess að vita að í framhaldinu kvaddi þessi kona líka Ísland. Henni höfðu orðið á þau „mistök“ að hafa lent í stríðinu í Sýrlandi og hafa ekki komið beinustu leið til Íslands á flótta sínum heldur fyrst til Grikklands.

Fréttin af konunni, sem er nafnlaus í fjölmiðlum, varðaði söguna af hennar aðstæðum. En ég hef áður nefnt það að íslenska sagan sem börnin í leikskólanum munu heyra, og hafa kannski fengið að heyra núna, a.m.k. þegar fram líða stundir, er líka mjög sorgleg; sagan af því hvernig aðstæður geta verið á Íslandi gagnvart fólki í neyð. Því hefur mér fundist, eins og ég nefndi hér í upphafi míns máls, að þessum árum sem hafa farið í þetta mál hefði verið betur varið í að smíða hér heildstæðan ramma sem tekur utan um veruleika og aðstæður fólks á flótta, samhliða því að búa til kanala fyrir fólk sem kemur hingað til að sækja sér vinnu; að við höfum þor í það að nálgast málið heildstætt, horfa á þarfirnar og viðurkenna tímabundinn kostnað en líka ávinning til lengri tíma og nálgast tækifærin.