Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ef við horfum á annað kerfi, við getum horft á réttarkerfið, þá held ég að í skilvirkninni sjálfri geti vissulega falist mannúð. Við getum í því sambandi haft í huga brotaþola sem leggur fram kæru til lögreglu fyrir alvarlegt brot, segjum kynferðisbrot, en þá er mjög þungbært að bíða kannski árum saman eftir því að málið verði til lykta leitt. Þannig að ég lít á það sem sjálfstæðan punkt að kerfið geti unnið hratt. Ég sé í sjálfu sér ekkert athugavert við það og meira en það að ég finni ekkert athugavert við það, það er bara mjög jákvætt að kerfið geti leyst úr sínum viðfangsefnum á skjótan máta, ekki þó á kostnað efnislegrar niðurstöðu, ekki á kostnað þess að kerfið sé mannúðlegt. Þetta tvennt getur sannarlega gengið hönd í hönd og það er mikils virði að kerfið vinni hratt úr sínum málum.

Mín gagnrýni á þetta frumvarp á fyrri stigum hefur einfaldlega verið sú að mér hefur fundist vanta upp á viljann til að taka á móti fólki á flótta. Við þekkjum öll hverjar aðstæður fólks á flótta eru. Við þekkjum tölurnar á heimsvísu um fjölda fólks sem er á flótta. Ísland er einfaldlega hluti af heiminum og ég sé það sem svo að við ættum að hafa það að markmiði að vera hluti af lausninni frekar en af vandanum.