Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér við upphaf þingfundar minnti ég virðulegan forseta á sjö vikna gamla kröfu um viðveru félags- og vinnumarkaðsráðherra við þessa umræðu. Þessi krafa er ekki úr lausu lofti gripin. Hún byggir ekki bara á því að hluti þessa frumvarps fjallar um málaflokka ráðherrans heldur byggir þessi krafa á því að ráðuneytið beinlínis óskaði þess að stíga inn í málið. Ráðuneyti hæstv. ráðherra bað um að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar þar sem verið var að fjalla um þetta frumvarp vegna þess að það væru hlutir í frumvarpinu sem ættu frekar heima hjá ráðuneytinu í frumvarpi sem þau ætla að koma með á næstu misserum.

Það er ekki hægt að ljúka 2. umr. um þetta mál án þess að ráðherra félags- og vinnumarkaðsmála mæti hér í sal og geri grein fyrir þeim sjónarmiðum sem voru að baki því að ráðuneytið tróð sér inn í þinglega meðferð málsins. Hann á að vera hér og mig langar því að spyrja virðulegan forseta, vegna þess að í byrjun fundar í dag fengum við að heyra að ráðherranum hefði verið gert ljóst að nærveru hans væri óskað, (Forseti hringir.) hvar standa þau samtöl og ég ætla ekki að spyrja hvort heldur hvenær er von á ráðherra í sal?