Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:42]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek undir þessa sjálfsögðu beiðni um að félagsmálaráðherra mæti hérna og geri grein fyrir sínum sjónarmiðum. Það var ítrekað beðið um að hann kæmi og tæki þátt í þessu samtali við 1. umr. en þá, ef ég man rétt, kom þingflokksformaður Vinstri grænna upp og sagði að hann ætti ekki heimangengt, hvað sem það nú þýðir. Hæstv. ráðherra gat ekki komið og tekið þátt í umræðunni við 1. umr. en þá var hann að tjá sig í fjölmiðlum, þrátt fyrir að hann væri ekki til í að koma hingað eða ætti ekki heimangengt í þingsal til að gera þinginu grein fyrir sínum skoðunum þá. Núna kemur frá forseta sú afsökun að hann eigi í raun og veru ekkert að taka þátt í 2. umr. af því að sú umræða sé á forsendum þingsins.

Mér finnst mikilvægt að koma hérna upp og tjá forseta að mér þykir ekki vera góður bragur á því að forseti sé að búa til einhverja afsökun fyrir hönd félagsmálaráðherra fyrir því af hverju hann ætti ekki að koma og mæta. Frekar ætti forseti að taka að sér það hlutverk að hreinlega upplýsa okkur þingmenn um hvenær hann ætlar að koma til þess að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu. (Forseti hringir.) Ef forseti er ekki með þær upplýsingar á reiðum höndum þá myndi ég kalla eftir því að einhver þingmaður Vinstri grænna, jafnvel þingflokksformaður, (Forseti hringir.) komi hér og geri þinginu grein fyrir því hvenær hæstv. ráðherra ætlar að koma og taka þátt í þessari mikilvægu umræðu.