Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það kom mér dálítið á óvart að forseti skyldi vísa til þess að málið væri í 2. umr. og því í höndum þingsins, og þess vegna bæri ráðherra ekki endilega að vera viðstaddur. Þetta eru rök sem halda stundum vatni en engan veginn núna, vegna ráðherrans sjálfs. Ekki vegna þess að okkur langi sérstaklega að fá hann inn í salinn, ekki vegna þess að okkur langi að bjarga honum frá þessum flótta undan málinu eða þess að við viljum neyða hann til að standa með þessu hryggðarfrumvarpi sem ríkisstjórnin hans leggur fram aftur og aftur — nei — vegna þess að ráðuneytið hans, embættismenn í umboði hæstv. ráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, mættu á fund allsherjar- og menntamálanefndar óumbeðnir til að segja nefndinni að hluti þessa máls heyrði til þeirra, þ.e. hluti af 2. umr. þessa máls. Þau báðu sérstaklega um að vera hluti af þessari umræðu og þess vegna á ráðherrann að sjálfsögðu að mæta. (Forseti hringir.) Við þurfum að vita hvenær og ef forseti getur ekki upplýst það þá skal einhver (Forseti hringir.) frá þingflokki Vinstri grænna koma hingað og gera það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)