Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:51]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nýta þann tíma sem mér er úthlutað í mína aðra ræðu, finnst eðlilegt að gera það í annarri ræðu, til að bregðast aðeins við þeirri umræðu sem fram hefur farið og kannski reyna að ramma aðeins inn hugrenningar mínar um það. Til að ramma inn þá finnst mér vera pínu svona excel-þankagangur á köflum, oft þægilegt að fara í tölur. Nú erum við með tölur, nokkuð ítarlegar, yfir bæði umsóknir og afgreiðslur, bæði veitingar og hafnanir um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun heldur ágætlega utan um það. Við erum núna með tölur komnar inn á vef stofnunarinnar fyrir janúar til nóvember í fyrra. Það hefur oft verið vísað í þessar tölur. Ég man nú ekki hvort einhver hefur haft fyrir því að þylja þær upp markvisst, nákvæmlega. Þær eru alla vega þannig að á þessu tímabili, sem er næstum því eitt ár, bárust 3.936 umsóknir sem er að sjálfsögðu fordæmalaust. Af þeim eru 2.143 frá fólki frá Úkraínu sem er 54%, ríflega helmingur. 966 eru frá fólki frá Venesúela. Það eru 25%, nákvæmlega fjórðungur. Svo eru aðrar 827 sem eftir standa. Það er 21% í heildina.

Í þessu ljósi sem og ýmsu öðru ljósi og öðrum tölum sem hægt er að henda upp um efnisatriði þessa málaflokks þá verð ég að segja að þó að umræðan hérna hafi verið mjög málefnaleg þá finnst mér hún oft ekki nógu markviss og sérstaklega ekki þegar maður skilgreinir orðið markvisst út frá því að verið sé að tala nákvæmlega um efni frumvarpsins og markmið þess og út frá hverju fólk styður þessi markmið og út frá hverju fólk styður eða hafnar frumvarpinu af því að ég verð að segja að mér finnst stundum bera á því að fólk fari í ýmsar áttir og tali um alls konar hluti sem þarf að gera og ýmsar réttlætingar fyrir frumvarpinu sem er erfitt að finna stoð fyrir í frumvarpinu sjálfu.

Stundum hefur borið á því t.d. að talað sé um að það sé svo mikið af fólki sem sækir um sem hefur ekki rétt og að þetta frumvarp muni taka á því. Við því finnst mér rétt að bregðast með þeim hætti að segja í fyrsta lagi: Samkvæmt tölunum er ekki mikið um þetta út frá því hversu mörgum er synjað, beinlínis synjað, eða fáum, réttara sagt, er synjað. Í öðru lagi er þetta frumvarp ekki að taka á því, svo að ég fái séð. Það er ekki að taka á því að skilgreina með einhverjum öðruvísi hætti að einhverju marki hverjir eigi rétt á vernd og hverjir ekki, af því að ef maður skoðar nefnilega annað talnasafn — þar sem við erum reyndar bara með niðurbrot fyrir 2021, það er kannski ekki komið fyrir 2022 af því að árið er ekki komið að fullu en ég held að það dugi ágætlega að fara í hittiðfyrra, skoðum svolítið hlutfall úrlausna þegar kemur að afgreiddum umsóknum. Á þessu ári voru 794 afgreiddar alls. Af þeim leiddu 354 eða 44,6% til veitingar, sem sagt jákvæðrar úrlausnar. 71 umsókn eða 9% voru Dyflinnarendursendingar. 214 eða 27% eru höfnun á þeim forsendum að það sé vernd í öðru ríki. 29 eru einhvers konar önnur lok. Það eru 4%. Það sem eru beinlínis synjanir af þessu — og ef ég er ekki eitthvað stórlega að misskilja þá er þetta sú tala sem er mælikvarðinn á hversu margir eru að sækja um sem eiga ekki rétt á vernd, þ.e. ekki rétt á vernd yfir höfuð — eru 16%. Svo eru það 36% sem eiga rétt á vernd, eða eru komnir með vernd, nú þegar jafnvel, bara einhvers staðar annars staðar.

Þannig að mér finnst þessi umræða aftur ómarkviss. Er þá kannski verið að tala um að það eigi að fjölga þeim sem eru sendir til baka á þeim forsendum að þeir eigi að fá eða sæki um annars staðar eða séu nú þegar komnir með vernd í öðru ríki? Þá verð ég nú bara að svara því enn og aftur að ég fæ ég ekki séð markmiðið með frumvarpinu sé að fjölga þeim tilfellum. Vernd í öðru ríki er eitthvað sem fólk hefur ekki rétt á í núverandi lögum, það helst óbreytt í þessu lagafrumvarpi. Um það hefur verið deilt hér og annars staðar í samfélaginu hvort það eigi t.d. að opna á þann möguleika að fólk sem er með vernd í Grikklandi, t.d. í ljósi þess hversu mikið álag er á kerfið í Grikklandi, geti komið og sótt um engu að síður, rétt eins og fólk hefur rétt á að sækja um vernd ef það hefur komið í gegnum Grikkland og Ungverjaland en ekki fengið vernd. Þetta er hins vegar bara efnislegt atriði sem helst óbreytt þó að þetta frumvarp verði samþykkt.

Þá ætla ég að fara aftur í þessar tölur, þessa fjölgun og á hverju hún byggist. Þar ræð ég af umræðunni að mér sýnist og heyrist vera mjög óumdeilt að það eigi ekkert að gera í því að breyta fjöldanum frá Úkraínu. Sú heimild fólks til að koma og sækja um hér mun haldast rúm. Mér finnst mjög jákvætt hve góð samstaða er um það, mér finnst það rétt í ljósi aðstæðna þar og hversu mikilvægt er að bæði senda skýr skilaboð um að við stöndum með Úkraínumönnum og auðvitað bara taktískt séð að berjast gegn Rússum með þessum hætti, að bjarga fólki sem Rússar eru að ráðast á.

Hins vegar þegar kemur að Venesúela finnst mér umræðan einhvern veginn í allar áttir, mjög skiptar skoðanir og stundum svolítið óljóst hvað fólk vill eða vill ekki. En þetta er hins vegar bara ákvörðun sem var, að því er mér skilst — ég á reyndar mjög erfitt með að finna mjög skýrar heimildir fyrir því — einfaldlega tekin á sínum tíma af dómsmálaráðuneytinu, að fólk þaðan ætti rétt á svokallaðri viðbótarvernd. Svo hætti Útlendingastofnun að veita þessa vernd. Kærunefnd skikkaði hana hins vegar í rauninni til að halda því áfram út frá því mati að aðstæður hefðu ekki breyst og auðvitað út frá jafnræðisgrundvelli verður fólk sem kemur úr sambærilegum aðstæðum að fá sambærilega meðferð. En gott og vel, kannski vill fólk breyta þessu en þetta er enn og aftur atriði sem ég fæ ekki séð að þetta frumvarp taki á, alla vega ekki með skýrum hætti. Mögulega er ákvæði b-liðar 8. gr. í frumvarpinu, sem snýr að því að víkka skilgreininguna á því hvenær er hægt að senda fólk til baka, ef maður hugsar út í það og les kannski smá vísbendingar í greinargerð og úr því sem hefur kannski verið ýjað að í þingsal, ætlað að fækka fólki frá Venesúela sem kemur hingað og sækir um hæli eða girða alveg fyrir það en ég veit það ekki. Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að mér finnst erfitt að samþykkja svona frumvarp sem er með óljós markmið og óljósan tilgang og þar sem erfitt er að rýna í nákvæmlega hvað muni gerast ef það er samþykkt.