Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Líkt og kom fram í ræðu minni hér rétt áðan, reyndar undir liðnum fundarstjórn forseta, tel ég að það séu margir þingmenn sem ætli að samþykkja þetta frumvarp í gegnum þetta þing af því að þeim hefur verið sagt að gera það, sem skilja ekki alveg málið, vita ekki nákvæmlega um hvað það snýst, telja kannski, eins og haldið er fram af hálfu meiri hlutans eða flutningsmanna frumvarpsins og höfunda, að það snúist um að straumlínulaga kerfið, auka skilvirkni og bæta einhverja vankanta á því og að það sé nauðsynlegt þó að það geti verið sársaukafullt. Mig grunar að það sé ástæðan fyrir að fólk er reiðubúið að samþykkja þetta.

Í umræðum um málið á þingi í gær var ein ræða, ræða hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, sem í mínum huga afhjúpaði svolítið misskilninginn sem er í gangi í þessu máli. Hv. þingmaður talaði einmitt um að við yrðum að hafa skýrari reglur hérna. Það þyrfti að bæta kerfið og það þyrfti að straumlínulaga það og annað. Hann talaði einnig um nokkuð sem mér hefur verið hugleikið um nokkurra ára bil og er orðalag sem kemur frá dómsmálaráðuneytinu. Það eru þau orð að hingað sæki aðilar, hingað leiti fólk sem eigi ekki erindi í verndarkerfið. Ég er ekki endilega alveg viss um að hv. þm. Vilhjálmur Árnason hafi endilega verið með nákvæmlega sama hóp í huga og ráðuneytið þegar það fer mikið með þessa setningu en þessu er fleygt í umræðunni um þetta mál til að undirstrika nauðsyn þess. Það sem verið er að tala um þegar þessu er haldið fram, að hingað sæki fólk sem eigi ekki erindi í verndarkerfið, þá er ráðuneytið í rauninni að lýsa skoðun sinni á því hvernig lögin eigi að vera, ekki hvernig þau eru. Því fylgir oft rökstuðningur fyrir því að fólk sem er búið að fá vernd í öðru ríki eigi ekkert erindi hingað til að fá vernd hér. Þar kemur í ljós hvaða hóp þau tala um. Þau eru að tala um einstaklinga sem hafa fengið alþjóðlega vernd í t.d. Grikklandi, stærsti hópurinn er frá Grikklandi, en það er líka nokkur fjöldi sem leitar hingað eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi og á Ítalíu. Svo eru einstök mál einstaklinga sem sækja um frá öðrum löndum. Það getur verið frá Þýskalandi, Svíþjóð, Noregi eða annað slíkt. Þá er það oftast vegna þess að umsækjendur hafa tengsl við Ísland. Það kom hingað fjölskylda sem hafði fengið vernd í Þýskalandi en vildi fá vernd á Íslandi vegna þess að mjög náinn fjölskyldumeðlimur var kominn með vernd hér á landi en þeim var synjað og þau send aftur til Þýskalands.

Kerfið sem við höfum byggt upp er þannig að í fyrsta lagi þá er fjölskylda þín ekkert nema bara óuppkomin börnin þín undir 18 ára og maki og ekkert annað. Systkini þín eru ekki fjölskyldan þín og foreldrar þínir eru ekki fjölskyldan nema þau séu yfir 67 ára og þurfi á umönnun að halda. Við höfum hins vegar haft reynslu af þessum málum um árabil. Allt frá því að ég hóf afskipti af þessu árið 2009 — eða reyndar hófust þau árið 2007, en kannski frá réttri hlið árið 2009, þar áður var ég starfsmaður í dómsmálaráðuneytinu að drafta úrskurði um brottvísanir fólks sem hafði sótt hér um vernd. Það var áhugaverð reynsla — allt frá þeim tíma hefur verið að koma hingað fólk sem hefur fengið vernd í öðrum ríkjum og þetta voru mál sem komu fyrir 2016. Fyrir lögin 2016 var í rauninni engin heimild í íslenskum lögum til að taka þessi mál. Þá má segja að lögin hafi verið þannig að þetta fólk hafi ekki átt erindi í verndarkerfið á Íslandi samkvæmt lögunum. Þessu var breytt árið 2016. Vandamálið er að stjórnvöld hafa ekkert verið að túlka lögin þannig, stjórnvöld hafa verið að túlka lögin svolítið í takt við það sem einhverjum í ráðuneytinu finnst, að þetta fólk eigi ekki erindi í verndarkerfið. Árið 2016 var þessum reglum breytt til að svara kalli almennings sem var orðinn þreyttur á því að verið væri að flytja fjölskyldur með ung börn til Grikklands. Reglunum var breytt og stjórnvöldum var veitt heimild til að taka þessi mál til efnismeðferðar hér á landi ef sérstakar ástæður mæltu með því.

Það sem er svo áhugavert er að þessi heimild er sannarlega það sem fólk er að tala um þegar það segir að hér séu reglurnar svo miklu linari en í öðrum löndum. (Forseti hringir.) Það sem gerir þetta áhugavert er að þrátt fyrir að við séum með þessa linu reglu (Forseti hringir.) þá erum við að senda fleiri til Grikkland en mörg önnur ríki Evrópu. (Forseti hringir.) Við erum að beita okkar „linu löggjöf“ strangar en önnur ríki beita sinni löggjöf.