Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:08]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Mig langaði til að spyrja áfram út í atriði sem við ræddum fyrr í dag varðandi breytingar á kerfinu okkar, það sem virtist einhvern veginn ekki komast nógu vel til skila frá mér. Ég velti fyrir mér hvort við séum að tala okkur inn á að við séum sammála um ýmis atriði eða hvort við séum bara í öllum grundvallaratriðum ósammála. Hv. þingmaður lýsti því hér áðan að hún teldi að fólk sem hefði þegar fengið vernd í öðru Evrópuríki ætti að fá vernd hér á Íslandi, ef ég skildi hv. þingmann rétt, eða ætti rétt á efnismeðferð, rétt á að fá aðgang að kerfinu, hv. þingmaður útskýrir það kannski betur fyrir mér.

Það sem ég er að reyna að skilja er, hvort það sé skoðun hv. þingmanns að þeir sem hafa fengið vernd í öðru Evrópuríki, þar sem hv. þingmanni þykja aðstæður óboðlegar, ómannúðlegar, eða hvaða nafni sem hv. þingmaður vill kalla það, eigi best heima í verndarkerfinu sem er sniðið utan um fólk sem hefur ríka ástæðu fyrir ótta vegna ofsókna og er að flýja stríð eða hörmungar eða hvort breytingarnar sem hv. þingmaður kallar eftir séu að umræddir aðilar geti komið sér inn með öðrum leiðum. Það er það sem ég var að reyna að koma að í dag og skýrist þá kannski betur núna.