Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:16]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að tala aðeins um áföll. Þegar fólk leitar að alþjóðlegri vernd þá er það almennt ekki eitthvað sem gerist bara sisvona. Það hefur gengið á einhverju. Hér hafa margir hv. þingmenn vísað til Venesúela og að flóttamenn þaðan séu efnahagslegir flóttamenn. Það gleymist í því samhengi að þar er há morðtíðni, mikið um ofbeldi og það er ekki eins og fólk leiti hingað bara sisvona af því að það sé bara að leita að betra lífi. Það er neyð sem rekur fólk til að yfirgefa heimili sín, yfirgefa allt sem það á og svo kemur það hingað oft nánast allslaust. Þegar hingað er komið fylgir því annað áfall þegar fólk þarf hér að bíða mánuðum, jafnvel árum saman og án þess að vita um afdrif sín og fjölskyldu og, eins og við höfum séð allt of mörg dæmi um, er síðan mögulega vísað héðan með valdi en seinna kemur í ljós að sú frávísun átti ekki við rök að styðjast. Þarna erum við búin að taka fólk í gegnum atburðarás sem fyrir mér blasir við að var engin þörf á.

Stundum hefur verið sagt: Heggur sá er hlífa skyldi. Það finnst mér eiga við í þessu. Þetta fólk er að leita að vernd og við komum ekki alltaf vel fram við það. Það er miður. Við þetta bætist að það eru alltaf að koma betur og betur fram tengsl áfalla við ýmsa líkamlega og sálræna kvilla. Þeir geta komið mörgum árum og áratugum seinna fram. Þetta eru alvarlegir kvillar sem geta hrjáð fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.

Þegar við erum að leita að skilvirkni þá eigum við ekki að leita að skilvirkni í því hvernig við getum afgreitt málin ódýrast. Við þurfum að horfa á marga þætti og þar sem ég starfa er stundum talað um ákveðinn þríhyrning sem er: hratt, vel, ódýrt. Þú mátt velja tvennt, þ.e. þú getur valið hratt og vel — það verður ekki ódýrt. En ef við ætlum að velja ódýrt þá þurfum við annaðhvort að gera hlutina illa eða hægt. Versti kosturinn fyrir mér í þessum málum er að við veljum að gera hlutina illa því það skapar miklu fleiri vandamál að gera hlutina illa en að vanda okkur.

Þá komum við að þessari spurningu: Hvernig raunverulega getum við gert hlutina skilvirkari? Ég hef verið að kalla eftir því hérna að heyra í hverju skilvirkni stjórnarliða felst vegna þess að það liggur ekki fyrir. Við vitum ekki í hverju sú skilvirkni á að felast. Mér finnst lágmark að við vitum nákvæmlega hvaða vandamál þessi skilvirkni á að leysa. Ég kalla eftir að því verði svarað.