Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hvar á að byrja? Það er hægt að kalla þetta frumvarp söguna endalausu. Þetta hefur fylgt ríkisstjórninni, ég ætla ekki að segja frá ómunatíð en frá því að hún varð til. Þetta er frumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur út í gegn. Þessi ríkisstjórn hefur átt fleiri dómsmálaráðherra en flestar, þeir hafa flestir haft skamma viðdvöl í ráðuneytinu en hver einn og einasti hefur lagt þetta mál fram í einhverri mynd, hvort sem ráðherrann heitir Sigríður Andersen, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eða Jón Gunnarsson. Alltaf skal þetta frumvarp vera efst í verkefnalista ráðherra.

Þetta finnst mér alltaf svo undarleg staðreynd ef við horfum aðeins handan við kosningarnar 2017, kosningarnar áður en þessi ríkisstjórn var mynduð. Rifjum upp hvað gerðist þá, vegna þess að útlendingamálin eru svo skrýtin, það er eiginlega ekki hægt að tala um þau abstrakt, það er svo mikil sál í þessum málaflokki, vegna þess að sérstaklega þegar við erum að tala um umsækjendur um alþjóðlega vernd þá erum við að tala um einstaklinga af holdi og blóði sem eru að flýja heimili sín til þess að komast í öryggi, til þess að tryggja sjálfum sér, börnum sínum og fjölskyldu öryggi. Þannig að það er kannski bara eðlilegt að það einkennir þennan málaflokk að stóru breytingarnar, verða í kjölfar stórra frétta af einstaklingum, af fólki eins og Mary og Haniye sem síðsumars og haustið 2017 komust í fréttir vegna þess að þeim átti að brottvísa. Það fannst fólkinu í kringum þær bara ekki ganga upp. Stúlkur sem voru búnar að festa rætur, að mig minnir báðar í Vesturbænum, áttu þar vini, kunningja, fólk sem þótti vænt um þær, fólk sem var ekki til í að leyfa kerfinu að henda þeim í brotið verndarkerfi Grikklands eins og til stóð.

Þá gerðist það sem ég heyrði hér einn stjórnarliða kalla eftir fyrr í dag. Þá varð þessi mikla pólitíska samstaða þegar við öll hér á þingi vorum sammála um að það þyrfti að gera einhverjar breytingar. Samstaðan náði ekki svo langt að hægt væri að gera einhverjar varanlegar breytingar heldur var stungið inn tveimur bráðabirgðaákvæðum í lög um útlendinga sem gerðu það að verkum að Mary og Haniye gátu fengið efnismeðferð og tugir barna í sömu stöðu, tugir barna, í skjóli þessarar lagabreytingar, fengu efnismeðferð. Það var ekki þannig að Alþingi hefði ákveðið að hleypa þessu liði inn án þess að skoða málin þeirra einu sinni. Nei, þau fengu bara þá sjálfsögðu virðingu að málin voru skoðuð efnislega. Við þá athugun kom í ljós að ekki væri hægt að tryggja réttindi þeirra til heilbrigðis, náms eða nokkurs annars sem skiptir máli í daglegu lífi með því að vísa þeim aftur í brotið hæliskerfi Grikklands.

En, hér í þessum þingsal gerðist síðan dálítið skrýtið með þetta mál, sem við héldum að væri samkomulag milli allra flokka á þingi þessa daga eftir að ríkisstjórnin féll. Einn flokkur heltist úr lestinni, einn flokkur skildi sig frá samstöðunni sem hér hafði náðst í þágu mannúðar. Einn flokkur kom fram með breytingartillögu sem dylgjaði um það að við værum bara að opna allar flóðgáttir fyrir möguleikum á mansali og alls konar bölvaða vitleysu sem ekki var studd neinum málefnalegum rökum. Þetta var bara hræðsluáróður í boði eins flokks, Sjálfstæðisflokks.

Hér sátu þingmenn Sjálfstæðisflokksins haustið 2017 og greiddu atkvæði, öll sem eitt, gegn þessari tillögu sem náðst hafði samstaða um innan þings. Eina fólkið sem datt það í hug voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hvað gerist síðan, ja, ekki korteri seinna en það voru ekki margar vikur sem liðu þangað til Vinstrihreyfingin – grænt framboð lét sig hafa það að mynda ríkisstjórn með þessum flokki, lét sig meira að segja hafa það að rétta honum lyklana að dómsmálaráðuneytinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið, ja, flest ár lýðveldistímans en öll ár ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Þannig að alveg eins og þetta frumvarp sem við fjöllum hér um í milljónasta sinn er sagan endalausa í bókinni um ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þá er það líka hluti af einhverju því óhuggulegasta í sögunni af tilurð ríkisstjórnarinnar, vegna þess að við vorum nú nokkur sem fannst ekki tilefni til þess að gleyma þessari atkvæðagreiðslu svona fljótt, ekki tilefni til þess að treysta Sjálfstæðisflokknum til að fara með þetta ráðuneyti strax eftir að hann neitaði að veita börnum á flótta áheyrn.

En svo fór sem fór og ráðherrarnir hafa frá þessum tímapunkti barið höfðinu við steininn. Fyrst fengum við að sjá hugmyndina um þetta frumvarp — ja, það fer nú að eiga afmæli núna í lok febrúar. Það var lagt í samráðsgátt 20. febrúar 2019. Það eru fjögur ár sem þetta frumvarp hefur verið til umræðu. Þar kristallast náttúrlega það sem hefur komið fram í ýmsum ræðum í dag, þetta samráðsleysi — eða samráðsleysi er kannski of óljós leið til að lýsa þessu af því samráðsleysi getur verið óviljandi yfirsjón. Samráðsleysi getur verið að fólk haldi að mál séu bara í himnalagi og þess vegna þurfi ekki að eiga gott og ítarlegt samráð. Þetta er nefnilega svo miklu einbeittari brotavilji sem birtist hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. 2019, 2020, 2021, 2022, þrisvar það ár, berast nefnilega inn umsagnir frá sérfræðingum við þetta mál. Á öllum ólíkum stigum hafa borist umsagnir frá sérfræðingum eins og Rauða krossi Íslands, eins og Íslandsdeild Amnesty, eins og Barnaheillum, eins og UNICEF, eins og Solaris, eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Megnið af þessu er bara hunsað. Það er bara tekið við þessum umsögnum og næst þegar málið lítur dagsins ljós er ekkert búið að bregðast við þeim.

Forseti. Við getum látið liggja á milli hluta að stjórnarflokkarnir hunsi athugasemdir frá fólki sem þeir eru kannski ekki með sérstaklega hátt skrifað. Ég held að við getum alveg sett — ja, eins og þessi ríkisstjórn hefur hagað sér þá er það fólk sem brennur hvað heitast fyrir þessum málaflokki, aðgerðasinnarnir sem beita sér í þágu mannúðar á hverjum einasta degi — það er ekkert endilega fólkið sem stjórnarflokkunum er eðlislægt að hlusta á. En svo erum við með líka umsagnaraðila eins og t.d. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands sem gagnrýnir bara töluvert í þessari útgáfu frumvarpsins, bæði ýmis efnisatriði og síðan að það hafi skort upp á mat á því hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrá eða mannréttindaákvæði. Ráðuneytinu fannst bara ekki þurfa að framkvæma slíkt mat. Meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fannst reyndar ekki heldur þurfa að framkvæma slíkt mat, enda kannski þeirrar skoðunar að mannréttindi skipti minna máli þegar sumir hópar eiga í hlut en aðrir.

Vendipunkturinn sem við erum að ná í dag í þessari umræðu núna, þessari 2. umr. í málinu, er að til viðbótar því að ráðuneytið, undir stjórn hvers Sjálfstæðisráðherrans á fætur öðrum, hafi hunsað allar þessar umsagnir, eins og ráðuneytið gerir bara ótrúlega oft, bætist það við að þingið hunsar það líka. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar, með allar þessar vel undirbyggðu, rökstuddu umsagnir í höndunum, bregst við nánast engum þeirra. Þeim til varnar væri kannski erfitt að bregðast við þeim öllum vegna þess að þá kæmi í ljós að það væri bara ekkert eftir af þessu frumvarpi, svo mikil hrákasmíð er það.

Við eigum hérna svar frá dómsmálaráðuneytinu þar sem það er að bregðast við umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ef við ættum að raða umsagnaraðilum í mikilvægisröð á forsendum ráðuneytisins myndi ég halda að Flóttamannastofnun væri dálítið ofarlega. Þetta er sú stofnun sem hefur það hlutverk á alþjóðavísu að leiðbeina aðildarríkjum um rétta framkvæmd flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Hún gerir t.d. athugasemd við það sem er í 13. og 15. gr. frumvarpsins varðandi fjölskyldusameiningu flóttamanna. Ég held að ég eigi kannski einhverja útgáfu á mannamáli um þá grein, bara svona til að setja í samhengi hversu fráleitur málflutningur ráðuneytisins er. 13. og 15. gr. skerða heimild kvótaflóttafólks til fjölskyldusameiningar við maka. Kvótaflóttafólk er lítill hópur þess fólks sem fær vernd á Íslandi. En þetta er fólkið sem stjórnvöld sækja til landsins, fara kannski í einhverjar flóttamannabúðir sem reknar eru af Flóttamannastofnuninni, greina einhverja viðkvæma hópa sem rétt þykir að taka til landsins og veita þjónustu hér.

Í samræmi við stefnu stjórnvalda erum við hér fyrst og fremst að horfa á konur og hinsegin karla sem koma makalaus í gegnum Flóttamannastofnunina en síðan kemur stundum í ljós að það er maki til staðar í heimalandinu. Þetta móðgar stjórnvöld alveg reiðinnar býsn þannig að þau vilja loka fyrir þetta, ekki vegna þess að þetta sé einhver svakaleg krísa, þetta getur varla verið nema eitt eða tvö tilvik annað hvert ár eða svo, nei, heldur vegna þess að þau eru bara móðguð. Það á að loka fyrir þetta vegna þess að einhverjum í kerfinu finnst fólk bara vera að svindla vegna þess að það nefndi ekki makann eitthvað fyrr.

Kannski er eitthvert fólk að svindla, en er ekki líklegra, frú forseti — segjum t.d. í tilviki einstæðrar móður sem er valin sem kvótaflóttamaður til Íslands vegna þess að hún á kannski á hættu að verða fyrir pólitískum ofsóknum vegna stjórnmálastarfs eiginmanns hennar í landi þar sem hans stjórnmálaskoðanir geta verið dauðadómur, segjum að þessi kona sé ekkja þegar hún sækir um til Íslands og verður kvótaflóttamaður en svo kemur í ljós að maðurinn var ekki drepinn fyrir fjórum árum heldur bara haldið í gíslingu, pyntaður í fjögur ár og svo sleppt. Þetta er maður sem íslensk stjórnvöld vilja ekki hleypa til landsins. Það er sérstök breyting í frumvarpinu til að taka á þessum hópi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir við ráðuneytið að þetta náttúrlega gangi ekki, það þurfi að halda þessu inni. Ráðuneytið segir í sínum athugasemdum að þau verði bara að vera sammála um að vera ósammála og þess vegna þurfi ekki neinu að breyta og þetta bara kaupir meiri hlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta dæmi kristallar svo vel hversu sinnulaus meiri hlutinn er um þetta mál, hversu sama þeim er um einstaklingana sem hér er verið að hafa áhrif á. Meira að segja þó að fínasta sortin af umsagnaraðilum bendi þeim á að þau séu að gera einhverja bölvaða vitleysu þá halda þau áfram.

Ég ætlaði að segja miklu meira. Fyrst það er að líða að lokum þessarar fyrstu ræðu minnar langaði mig að nefna að alveg eins og öll hin fyrri skiptin þá er það núna að grasrótarhreyfingar úti í samfélaginu eru að standa vörð um réttindi fólks á flótta og eru sem betur fer ekki búnar að leggja árar í bát þótt stjórnarmeirihlutinn sé að setja ótrúlega mikinn þrýsting á að klára þetta mál. Þá langar mig að nefna hér grasrótarhreyfingu sem kallar sig Fellum frumvarpið sem hefur núna frá áramótum verið að banka upp á hjá þinginu og, eins og nafnið gefur til kynna, hvetja fólk til að fella frumvarpið. Þau eru meira að segja með eiginlega bara dálítið pena og sanngjarna kröfu í niðurlagi bréfs sem okkur var sent. Þau skora á að frumvarpið sé dregið til baka og unnið upp á nýtt í samstarfi við fagaðila þar sem virðing fyrir jafnrétti og mannréttindum er höfð í hávegum. Þetta finnst manni eiginlega vera svo sjálfsagt að öll mál ættu að vera unnin svona. En það er bara alls ekki málið með þetta frumvarp.

Sú staðreynd kemur t.d. fram í því að einhver óljós fyrirheit eru hjá hluta stjórnarliða um að málið muni taka breytingum á milli 2. og 3. umr., einhverjum óskilgreindum breytingum til að ná utan um einhver af sjónarmiðunum sem koma fram í umsögnum. Ég segi nú bara: Segðu mér annan. Þau höfðu tækifæri bara í síðustu viku þegar málið var til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd, höfðu tækifærið allt þetta haust. Þau höfðu tækifærið þegar málið var lagt fram í apríl síðastliðnum á Alþingi, eða þegar það var sett í samráðsgáttina í janúar síðastliðnum, eða þegar það var lagt fram í mars 2021 á þingi, eða í apríl 2020, eða í apríl 2019, eða þegar það birtist fyrst í samráðsgáttinni, í febrúar 2019. Á öllum þessum tímapunktum hafa stjórnarliðar ekki valið að nýta tækifærið í samstarf við fagaðila þar sem virðing fyrir jafnrétti og mannréttindum er höfð í hávegum. Þess vegna stöndum við hér, frú forseti, með ónýtt frumvarp sem mun skerða réttindi lítilla en viðkvæmra hópa fólks á flótta, (Forseti hringir.) bara vegna þess að stjórnarliðar eru móðgaðir út af hinum og þessum smáatriðum. (Forseti hringir.) T.d. þegar ekkja fær þær gleðifregnir að hún sé ekki ekkja þá vill Jón Gunnarsson breyta lögum og halda manninum frá landinu.