Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að ég þurfi fyrst að setja þann forseta sem nýlega tók sæti við fundarstjórn aðeins inn í forsögu þess sem ég er að segja núna. Þannig er að 9. desember sl. var gerð sú krafa að félags- og vinnumarkaðsráðherra yrði viðstaddur og tæki þátt í þessari umræðu. Sú krafa var ítrekuð á fundi þingflokksformanna í byrjun þessarar viku og hefur síðan verið ítrekuð upp á hvern einasta dag. Við byrjuðum t.d. fund þessa dags á því að spyrja forseta hvort von væri á ráðherra. Þá sagði sá forseti sem stýrði fundinum á þeim tíma að boðum hefði verið komið til ráðherra. Sá forseti sem stýrði fundi á undan þeim sem nú gerir það sagði slíkt hið sama hér rétt áðan.

Mig langar að inna núverandi sitjandi forseta svara og spyrja: Hvenær megum við eiga von á því að ráðherra mæti í umræðuna eða einhver fulltrúi þingflokks hans í staðinn til að gera grein fyrir því hvers vegna hann sé ekki hér núna og hvenær hann muni koma?