Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:09]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegur forseti. Ég lagði fram nokkrar spurningar í ræðu minni í gærkvöldi áður en fundi var frestað. Við þeim hafa engin svör borist þannig að ég ætla að endurtaka eina þeirra. Það er spurning um orðið skilvirkni. Mig langar að fá skýringar á því í hverju skilvirknin felst sem þetta frumvarp á að auka? Felst hún í því að starfsmenn Útlendingastofnunar þurfi að eyða sem minnstum tíma í hvert mál? Ef svo er þá mun þetta frumvarp ekki ná því markmiði. Eða erum við að leita að skilvirkni í því að búa til eitthvert markmið um fjölda þess fólks sem við tökum við inn í landið og að búa til hærri girðingar og þrengri takmarkanir gagnvart því fólki sem leitar hingað? Felst skilvirknin í því að hingað leiti ekki fleiri en einhver önnur ímynduð tala, af því að við erum búin að tala mikið um tölur? Sé verið að leitast við að halda þeim fjölda sem við tökum við fyrir innan eitthvert ákveðið takmark þá þykir mér það sorgleg nálgun. Þessi verkefni þarf að nálgast með allt öðrum hætti. Við getum ekki bara búið til eitthvert ímyndað takmark og gert allt sem við getum til að hægja á komu fólks á flótta.

Eins og ég rakti í ræðu minni í gær þá gerum við það ekki við eldsvoða, fótbrot eða barnsfæðingar. Við spyrjum ekki hvort við séum búin að slökkva nógu marga elda þegar eldur kviknar, við bregðumst bara við. Þannig þurfum við að taka á þessum málum. Ég átta mig ekki heldur á því hvernig þetta frumvarp stuðlar að þessu. Ef við erum að leitast við að hingað leiti færri þá vona ég innilega að ég sé að misskilja að það eigi að taka það harkalega á umsóknum þess fólks sem leitar hingað að það telji hag sínum betur borgið með því að leita annað. Aftur skil ég heldur ekki hvernig þetta frumvarp stuðlar að því markmiði. Og miðað við ræður stjórnarliða er ég ekki viss um að þau skilji það heldur.

Ég átta mig ekki á hver, ef einhver, af þessum valkostum er skilgreiningin á því hvað sé skilvirkt? Ég kalla aftur eftir því að fá skýringar á því, eða vita stjórnarliðar yfir höfuð í hverju skilvirknin felst? Ef ekki, þá langar mig aftur að benda á þá augljósu staðreynd að sá sem veit ekki hvert hann vill fara er mjög ólíklegur til að komast þangað.

Mín óskastaða, ef það ætti að auka skilvirkni, væri að gera sem allra mest úr því fjármagni sem er nýtt og draga úr þörfinni fyrir fjármagn. Það má vel ná þeim markmiðum. Það mætti t.d. auðvelda fólki að fá vinnu þannig að það verði ekki á framfæri ríkisins og það mætti nýta fé mun betur því að brottvísanir með valdi eru afar dýrar. Staðreyndin er því miður sú að við höfum sóað gullnu tækifæri í að ná árangri með því að taka ekki meira mark, ef nokkurt, á umsögnum. Þetta frumvarp er ekki að búa til skilvirkni eða draga úr kostnaði, það einfaldlega getur það ekki. Auk þess kalla ég eftir því að við fáum hér til umfjöllunar þær breytingar sem til stendur að gera á frumvarpinu þannig að við getum rætt þær hér við 2. umr.