Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er farinn að hafa áhyggjur af þessu viðhorfi Vinstri grænna til forseta Alþingis, til starfanna hér á þingi, sem birtist í því að þögnin ein virðist mæta þeirri kröfu sem hefur legið fyrir í sjö vikur að ráðherra Vinstri grænna mæti hér og taki þátt í umræðunni. Sú krafa hefur verið ítrekuð alla þessa viku meðan á umræðunni hefur staðið og við byrjuðum þennan fund á að undirstrika að krafa væri um þessa umræðu. Síðan eru liðnir fjórir klukkutímar og enn hefur forseti Alþingis ekkert heyrt frá þingflokki Vinstri grænna eða ráðherra Vinstri grænna sem krafa er gerð um að mæti í salinn. Ég hef eiginlega aldrei séð annað eins. Ég hef ekki vitað til þess að þingflokkar telji sig þess umkomna að hunsa forseta Alþingis þegar kemur að umræðum við forseta um (Forseti hringir.) dagskrá þingsins. Þessi dónaskapur þingflokksins er eitthvað sem ég vona að forseti láti ekki viðgangast.