Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það hefur af og til hér, frá því að umræðan hófst í þessu máli, verið fjallað um tímafresti, 12 mánaða viðmiðið og annað því tengt. Ég hef haft þá tilfinningu að þetta sé kannski ein af þessum séríslensku reglum sem gætu verið að hafa nokkur áhrif hvað umfang og fjölda umsókna varðar, að það sé meira svigrúm hér á Íslandi til að draga málsmeðferð á langinn en víða annars staðar. Mig langar í þessu samhengi að velta því upp hver afstaða hv. þingmanns er til tímafrestanna sem slíkra. Telur hv. þingmaður að það sé óeðlilegt að þeir séu eins og þeir eru núna? Ættu þeir að vera enn lengri eða að einhverju marki styttri? Eða hvernig sæi hv. þingmaður fyrir sér, hafandi starfað í þessu umhverfi, að mest gagn yrði af til þess að auka skilvirkni í kerfinu, sem ég veit að við erum bæði áhugasöm um þó að við deilum ekki alltaf skoðun á því hvernig það verður best gert? Þetta er kannski svolítið opin spurning: Eru að mati hv. þingmanns forsendur til að nálgast þessa reglu með öðrum hætti og hvort væri það þá til lengingar eða styttingar á þessum viðmiðum? Og hver telur hv. þingmaður að yrðu áhrifin af því? Ef mánaðafjöldinn yrði t.d. hækkaður, myndi það að mati hv. þingmanns auka eða draga úr fjölda umsókna? Eða telur hv. þingmaður að þetta hafi í raun engin áhrif á fjölda umsókna sem hingað berast.