Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Hann er að brydda upp á lögfræðilegu álitaefni sem er eitt af mínum uppáhalds, hefur verið síðan þessi Covid-heimsfaraldur skall á og þessi mál fóru að koma upp þar sem var ekki hægt að flytja fólk úr landi og við skulum bara nota orðalagið „vegna þess að það neitaði að fara í Covid-próf “. Við skulum bara halda okkur innan þess ramma til þess að hafa það alveg skýrt. Í löggjöf í flestum ríkjum, og í Evrópureglum líka, m.a. í Dyflinnarreglugerðinni, eru ákveðnir frestir sem stjórnvöld hafa til að flytja fólk úr landi eftir synjun. Það er algengt að það séu fyrirvarar á þessum frestum. Fyrirvarinn er oftast þessi: „nema umsækjandi hafi látið sig hverfa“, engir aðrir. Hann má reyna að tefja málið ef honum hentar en það er á ábyrgð stjórnvalda að flytja hann úr landi. Í rauninni byggist kerfið á því að það sé á ábyrgð stjórnvalda að koma þér úr landi ef þú vilt ekki fara úr landi vegna þess að þetta er í eðli sínu þvinguð ákvörðun og þvingaður flutningur. Vegna þessa er lögregla t.d. með heimildir í lögum til þvingunarráðstafana. Það eru heimildir til gæsluvarðhalds, það eru heimildir til að handtaka fólk, það eru heimildir til þess að fara með það bundið í flugi. Það eru alls konar heimildir, vegna þess að þetta er þvingaður flutningur.

Gerðin eins og er í Evrópu og öðrum ríkjum gerir ekki ráð fyrir því að þú sýnir eitthvert samstarf við flutninginn. Ef þú segir: Já, ókei, ég er til í þetta Covid-próf hérna, þá þýðir það að þú sért ekki bara að sýna samstarf, þú ert beinlínis að veita beinan atbeina að því að verða fluttur úr landi í þvingaðri brottför. Þetta er mótsögn. Lögfræðilega gengur þetta ekki upp að mínu mati. Ég er meira að segja til í að leggja mannúðina og sanngirnina til hliðar. Mig langar bara að tala svolítið eins og lögfræðingur sem er að reyna að túlka lögin og þá gengur þetta ekki upp. Það er heimsfaraldur sem veldur því að ríki eru að setja einhver skilyrði sem lögreglan sá ekki fyrir og löggjafinn sá ekki fyrir þegar lögin voru sett og þá verða stjórnvöld (Forseti hringir.) að bera hallann af því og þessir einstaklingar að fá efnismeðferð ef ekki tekst að flytja þá úr landi. (Forseti hringir.) Ég get ekki séð að það eigi að vera eitthvert aðdráttarafli í því. Heimsfaraldurinn er búinn núna (Forseti hringir.) og þetta sýnir að mínu mati líka hversu klaufalegt þetta frumvarp er. Það er verið að leysa eitthvert vandamál sem er búið. Þetta voru Covid-málin. (Forseti hringir.) Þetta var ekkert vandamál áður en Covid kom, þá bara kláruðu stjórnvöld mál innan 12 mánaða.