Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

fjárframlög til heilbrigðismála.

[10:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir þessa spurningu. Stutta svarið er auðvitað: Já, við náum því í gegn. Hv. þingmaður hafði ágætisformála á sinni spurningu, sem snýr að því hvaða verkefni séu í gangi og hvað við séum að gera. Ég vil taka það fram að ég kom, þegar þingið fór af stað og nefndir þingsins, fyrir hv. velferðarnefnd og fór í gegnum það sem við höfum verið að gera á öllu árinu til að bregðast við þessari stöðu. Þessi taktík sem hv. þingmaður kemur inn á eða meinta taktík vil ég orða það — við hlustum og við eigum í þéttu samtali, bæði við spítalann og við Læknafélagið, og við tökum þessa stöðu mjög alvarlega. Hún var ekki bara að skella á okkur núna í desember. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, þetta hefur verið viðvarandi staða nánast allt árið og lengur. Við fórum í gegnum Covid og harðasta bylgjan í þessari stöðu þegar flestir komu inn á spítalann var ómikrón-bylgjan sem var framan af síðasta ári og við vorum þá í viðbrögðum. Það er rétt sem hv. þingmaður dregur hér fram, og við höfum margrætt hér í þingsal, að það er þetta flæði sem þarf að vera, þannig að þessi vandi birtist ekki á bráðamóttökunni. Ég fór yfir þessa tímalínu með hv. velferðarnefnd og í byrjun sumars tókum við fund með bráðamóttökunni, settum af stað viðbragðsteymi til að efla alla bráðaþjónustu í landinu. Spítalinn hefur líka gert fjölmargt í sínu innra skipulagi. Á miðju sumri var til að mynda sett á fót bráðadeild lyflækninga vegna þess að það er misjöfn staða á sjúklingum sem leita inn á bráðamóttöku. Sumir þurfa innlagnar við. (Forseti hringir.) Af því að þetta er risastórt mál og hangir auðvitað, eins og hv. þingmaður kom inn á, saman við uppbyggingu annarra úrræða skal ég reyna að koma inn á það, í þessu stóra máli og í þessu stóra verkefni, í seinna andsvari.