Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

fjárframlög til heilbrigðismála.

[10:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Varðandi legurýmavandann og þessa stöðu þá skortir rými þegar sjúklingar eru búnir að fá þjónustu á spítalanum og við opnuðum u.þ.b. 120 ný rými, fjármögnuð að sjálfsögðu. Það þurfti viðbótarfjármagn og það var tryggt. Þar af voru um 60 rými í þéttu samstarfi við hjúkrunarheimilin og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og spítalann, 60 rými sem ekki voru á áætlun, með spítalann í forgang. Þetta bjargaði stöðunni og þetta staðfesti spítalinn á fundi velferðarnefndar. Við fórum mjög vel yfir það með hv. velferðarnefnd. Þetta er mjög mikilvægt og ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta. Við vorum þannig á undan þessari holskeflu veirusýkinga, annars hefði þetta verið miklu erfiðara að kljást við.

Fyrirhugaða uppbyggingu hjúkrunarheimila á Vík vantar inn í fjármálaáætlun. Það verður tryggt núna í þeirri fjármálaáætlun sem við ræðum í vor og allt annað sem er á framkvæmdaáætlun um aukningu hjúkrunarrýma. Það verður inni í fjármálaáætlun núna í vor.