Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir sína ræðu. Það er nú kannski ekki þannig að við, ég og hv. þingmaður, séum mjög sammála þegar kemur að þessu málefni. En hv. þingmaður veltir samt upp ákveðnum punktum sem mig langar kannski ekki að slást við hann um heldur langar mig frekar í fyrra andsvarinu að fá aðeins innsýn inn í reynsluheim hv. þingmanns því að eitt sinn var hann jú hæstv. forsætisráðherra. Í upphafi ræðu sinnar talaði hv. þingmaður um það hvernig svo virðist vera sem hver flokkurinn sé upp á móti öðrum í ríkisstjórn, þeirri sem við erum með núna, og hvernig þeir virðast tala ansi mikið á skjön en samt samþykkja allt í ríkisstjórn án fyrirvara. Þar sem hv. þingmaður hefur verið hér á þingi dálítið lengur en ég og leitt ríkisstjórn þá langaði mig að spyrja hv. þingmann hvað hann héldi að væri að gerast innan ríkisstjórnarflokkanna þegar svo er. Við sjáum náttúrlega bara rétt það sem nær í fjölmiðla eða nær hér í ræðustól Alþingis en það virðist vera að þarna sé ágreiningur en að fólk þori ekki að fara upp á móti hinum flokkunum allt til að halda í völd. Og hafandi 01-ríkisstjórn gera menn það almennt? Er bara alveg sama hvað gerist, gera menn allt til að halda í völdin?

Mig langaði að fá smá viðbragð við þessu frá hv. þingmanni.