Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður heyrði greinilega við ekki þegar ég benti á að það væri Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem hefði skilgreint að þarna væri ástand sem fellur ekki undir efnahagslegan flótta heldur flótta af ótta við að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum. Þetta er það sem ríkisstjórnin þarna er að gera innan lands. Þetta er sú hætta sem fólkið er að flýja og það er ekki kærunefndin sem er að velja það, það er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem er búin að skilgreina að þetta sé þannig. (EÁ: … kærunefndinni.) Kærunefndin byggir á Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem hefur sennilega aðeins meira vit á þessu en margir aðrir. (Forseti hringir.) Síðan langar mig að benda hv. þingmanni á að það er enginn að tala um að hingað komi 15 milljónir manna (Forseti hringir.) heldur er það þannig að við tökum á móti fólki sem er í neyð. (Forseti hringir.) 2,5 milljónir hafa farið til Kólumbíu, 1,5 milljónir til Perú. Við erum einfaldlega styttri leið hingað.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að í síðara andsvari og síðara svari hafa ræðumenn aðeins eina mínútu.)