Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar aðeins að reyna að leiðrétta misskilning sem kemur dálítið oft fram í umræðum hér um umsækjendur um alþjóðlega vernd og þá misskilning sem kemur oft fram af því að það er verið að tala um að fólk sé að fá vernd frá löndum þar sem ekki sé neitt stríð eða annað í gangi heldur sé það að flýja eitthvert efnahagslegt ástand. Það er jafnvel gengið svo langt að halda því fram, frú forseti, að kærunefnd útlendingamála sé að veita fólki hæli á grundvelli efnahagsástands. Að sjálfsögðu getur slæmt efnahagsástand leitt til þess að í landi brotni allt niður og allt fari í fari á versta veg og þar verði stríð en það er samt ekki þannig. Þá er mikilvægt að við séum öll með það á hreinu hvað núverandi og framtíðarfrumvarp eða framtíðarlög, ef þetta frumvarp er samþykkt — hvernig þau skilgreina hverjir eigi rétt á vernd en III. og IV. kafli laga um útlendinga fjalla nákvæmlega um þetta, um flóttamenn og alþjóðlega vernd. Í 37. gr. er hugtakið flóttamaður skilgreint, með leyfi forseta, á eftirfarandi máta:

„Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.“

Þetta var löng setning, frú forseti. Þarna er mikilvægt að við horfum á þetta: vegna ótta við að vera ofsóttur vegna ákveðinna hluta. Þarna stendur ekki: ótta við það að vera fátækur, ótta við það að geta ekki orðið ríkur, ótta við það að verða ekki Hollywood-stjarna eða hvað við viljum skilgreina. Það er ekkert slíkt þarna. Þetta er það sem við skilgreinum sem flóttamann. En það sem við skilgreinum sem einstakling sem þarf alþjóðlega vernd — það er dálítið góð setning þannig að ég er hræddur um að ég verði að fá að koma aftur og fara í þá grein, frú forseti — hvort þú gætir bætt mér inn á mælendaskrá svo ég geti haldið áfram að lesa skilgreininguna og sýnt fram á að þarna séu engin tækifæri fyrir fólk að fá þessa skilgreiningu, annaðhvort að vera flóttamaður eða umsækjandi um alþjóðlega vernd, einungis út frá efnahagsástandi í landinu. Og svo vil ég kannski fara í að sýna að tölfræðin sýnir að það er bara nákvæmlega þannig.