Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:50]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég var í síðustu ræðu minni búinn að fara í gegnum það hvað er að vera flóttamaður. Stundum köllum við þá skilgreiningu það að vera kvótaflóttamaður. En förum þá að skilgreiningunni um það sem við köllum umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem er nú svona þar sem við erum meira að tala um hér í dag. En í sömu grein, 37. gr. laga um útlendinga, segir, með leyfi forseta:

„Flóttamaður samkvæmt lögum þessum er einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna“ — þ.e. það sem ég las upp í síðustu ræðu — „ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði hann sendur aftur til heimalands síns. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.“

Þarna er í raun verið að gera greinarmun á þeim sem almennt eru kallaðir flóttamenn eða kvótaflóttamenn annars vegar og hælisleitendur eða umsækjendur um alþjóðlega vernd hins vegar.

Það er einnig mikilvægt að lesa næstu grein þessara laga en í 38. gr. í sömu lögum er skilgreint hvað þurfi að uppfylla til þess að um ofsóknir sé að ræða. Munum að það stóð að útlendingur þyrfti að vera með ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur. Þar er talað um, með leyfi forseta, „athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.“

Já, mismunun á grundvelli kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, þjóðfélagshóps og stjórnmálaskoðana er meðal þeirra atriða sem fjallað er um þar.

Í 40. gr. laganna er síðan sérstaklega tekið á því ef viðkomandi hefur brotið lög eða framið stríðsglæpi, þá á ekkert af þessu við. Þarna er á mjög skýran hátt tekið á því sem oft er talað um, að hingað séu bara að koma glæpamenn, sem auðvitað er alger fásinna og ekkert annað en kynþáttahatur í mínum huga. Já, ekkert í þessari 30. eða 38. gr. leiðir til þess, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson reyndi að halda fram hér áðan, að efnahagslegar ástæður í heimalandi væru næg ástæða til þess að fá hér hæli.