Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Áður en ég byrja ræðu mína þá langaði mig að segja að hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir var ansi hógvær hér áðan þegar hún talaði um að hún hefði einhverja reynslu úr þessum geira. Það eru sennilega fáir á hinu háa Alþingi sem hafa fengið jafn góða innsýn í þennan málaflokk og hv. þingmaður. Það að hv. þingmenn stjórnarflokkanna skuli ekki nýta sér það tækifæri að fá að heyra raunverulega hvernig hlutirnir gerast og raunverulega hvaða áhrif þetta frumvarp hefur er bara sorglegt í mínum augum vegna þess að við sem setjumst hér á þing eigum að taka vel upplýstar ákvarðanir um þau lög sem við setjum hér. Það er ekki hægt að vera sérfræðingur í öllu en það er svo sannarlega hægt að hlusta á þá sem eru sérfræðingar og læra af þeim og það hef ég mikið gert.

En ég ætlaði að flytja mína eigin ræðu í staðinn fyrir lofræðu um kollega minn. Mig langaði að tala aðeins um tvö orð sem hafa heyrst ansi mikið í umræðunni og það eru orðin flóðbylgjur og seglar. Þetta eru sennilega vinsælustu orð vikunnar, alla vega hjá þeim sem eru í stjórnarflokkunum eða eru fylgjandi þessu frumvarpi. Við heyrum ansi oft talað hér um að það sé flóðbylgja hælisleitenda á leiðinni hingað og það séu séríslenskir seglar sem dragi allt þetta fólk hingað. Við heyrum meira að segja suma tala um að það séu hreinlega auglýsingar sem auglýsi Ísland sem frábært land til að sækja um hæli í. Ekki veit ég hvort þær auglýsingar koma frá Íslandsstofu en við erum búin að vera dugleg að auglýsa Ísland fyrir ferðamennina, kannski virkar það eitthvað líka á hælisleitendur, ég veit það ekki. En alla vega, ég held að ef þetta væri satt þá væri flóðbylgja á leiðinni hingað og það væru auglýsingar úti um allt þá væru kannski hér þúsundir að koma frá löndum þar sem ekki geisar stríð. En það er bara ekki raunveruleikinn. Það er svo auðvelt að nota svona orð og nýta þau til þess að byggja upp eitthvert hatur gagnvart því fólki sem hingað leitar í neyð og mér finnst virkilega að vera skömm að því þegar hv. þingmenn nota þvílíkan popúlisma eins og það að nota svona orð og hræðsluáróður án þess að gögnin sýni að þetta sé rétt. Já, það er mikil fjölgun á umsóknum á þessu ári en það er af því að 52% þeirra sem hingað leituðu til að fá hæli koma frá Úkraínu og það tekur að sjálfsögðu á að sýna þá mannúð og þá reisn sem þjóð að standa með þessu fólki sem er að berjast fyrir lýðræði í Evrópu. Ég veit að við teljum það ekki eftir okkur. Næststærsti hópurinn, 26%, kemur frá Venesúela. Þaðan er fólk að flýja ófriðarástand sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint sem slíkt og alls er 7,1 milljón búin að flýja þaðan og við fáum að sjálfsögðu hluta af þessari 7,1 milljón. Samtals gera þessi tvö lönd 78% af þeim sem sóttu hingað í auknum mæli. Já, ef ekki væri þetta ástand í Úkraínu og Venesúela þá væri staðan allt önnur.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég sé að ég þarf greinilega að biðja um að fá að komast að aftur. (Forseti (ÁLÞ): Já.) Ég bið um að fá að komast á mælendaskrá til að klára ræðu mína. Ég verð að passa mig á þessum lofræðum.