Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar í þessari ræðu, og það gæti gerst að það fari yfir í aðra ræðu, vegna þess að við erum komin í ansi stuttar ræður, að fjalla aðeins um það sem ég held að sé frekar alvarleg vöntun inn í eina af þeim breytingum sem verið er að gera. Ég trúi því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi hreinlega ekki áttað sig á þessu. Mig langar að biðja nefndarmenn þar, sem eru kannski að hlusta — ég mun reyndar reyna að ýta á þetta við þá annars staðar líka — að skoða það mál sem ég er að fara að nefna dálítið vel. Eitt af því sem verið er að breyta í þessu frumvarpi snertir niðurfellingu á réttindum eftir 30 daga frá synjun. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þó er ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir.“

Við getum rifist um það hvort fella eigi þessa þjónustu niður eða ekki en ef við ætlum að hafa þessar undanþágur þá tel ég að meiri hlutinn hafi því miður gleymt mjög mikilvægum hópi sem þyrfti að vera undanþeginn þarna og ég veit að önnur lönd undanþiggja slíku. Það er hópur sem Evrópuráðið, sem Ísland á ekki bara sæti í heldur leiðir um þessar mundir, hefur sérstaklega bent á í tilmælum sínum sem gefin voru út 20. maí 2022, en þar er bent á að vernda þurfi flóttamenn og hælisleitendur sem eru konur. Þessi tilmæli byggjast m.a. á Istanbúl-samningnum svokallaða. En við erum einmitt að fara í sérstakar umræður um það hversu vel við höfum fylgt honum, vonandi í næstu viku. Þessi tilmæli frá Evrópuráðinu, ráðherraráði Evrópuráðsins, benda sérstaklega á það að konum og stúlkum hafi fjölgað stórlega í þessum hópi. Það er líka bent á það í þessum tilmælum að konur og stúlkur á flótta eigi mjög á hættu að verða fyrir mansali, ofbeldi, kynferðisofbeldi og öðru á meðan þær eru á flótta og séu líka sumar hverjar að flýja ofbeldi í heimalandi sínu. Þess vegna eru þessi tilmæli — með öllum fallega lagatextanum eru þetta einhverjar 15–20 síður þar sem farið er djúpt í gegnum þetta.

Mig langar bara að biðja hv. allsherjar- og menntamálanefnd að íhuga það alvarlega hvort ekki þurfi að bæta inn í þessa upptalningu á hópum sem þurfi að vernda sérstaklega fyrir þessari niðurfellingu konum og stúlkum sem hafa orðið fyrir mansali eða öðru ofbeldi, það er bara hreinlega eitthvað sem við verðum að passa.