Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:32]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í síðustu ræðu var ég að tala um viðkvæman hóp, konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða lent í mansali. Mig langar í þessari ræðu að fjalla um annan viðkvæman hóp. Það er dálítið erfitt að fjalla um þessi mál á þennan sundurleita veg sem við höfum, fimm mínútur í senn til að tala. En ég vona að það sé einhvern veginn á vef Alþingis hægt að fá meiri samfellu í þetta.

En ég sagðist ætla að tala um viðkvæman hóp og það er hinsegin og kynsegin fólk. Við fengum öll að sjá það í áramótaskaupinu að það er svo sannarlega ekki tekið nægilega vel á móti þeim hóp hér á Íslandi og farið ansi langt í því að krefja fólk um að sanna hinsegin- og kynseginleikann. Þetta er ekkert einsdæmi hjá Útlendingastofnun, því miður, því ég hef heyrt ófá dæmi um fólk sem gerir þau mistök að giftast útlendingi — mistök, já, eða a.m.k. samkvæmt Útlendingastofnun virðast það vera mistök vegna þess að þau eru viss um að öll hjónabönd sem eru slík hljóti að vera plat. Það lá við — kom fram í fjölmiðlum að það var einn sem spurði hvort hann þyrfti hreinlega sýna hvort hann stundaði kynlíf með eiginkonu sinni, hvort það væri nægilegt til þess, og gera það fyrir framan fulltrúa Útlendingastofnunar.

Í siðmenntuðu þjóðfélagi getum við ekki gengið svona langt og það er stundum notað gegn hælisleitendunum að þeir hafi ekki sagt frá því við komuna til landsins að þeir væru hinsegin eða kynsegin og þar af leiðandi hlytu þeir að hafa lesið það einhvers staðar að það væri góð ástæða til að fá hér hæli og því ættu þeir að nota það. En því miður er það einfaldlega þannig að hælisleitendur segja ekki frá hinsegin- og kynseginleikanum strax af ástæðum sem við erum kannski búin að gleyma því að við erum komin dálítið lengra í réttindum þessa hóps. Það er það að margt af þessu fólki sem kemur hingað kemur frá menningu þar sem hinsegin- og kynseginleikinn er stundum jafnvel bannaður með lögum. Það er því ekkert skrýtið að þetta fólk hræðist hvað yfirvöld geri við það ef það segir hreinlega frá því að það séu hinsegin eða kynsegin og við erum heldur ekki að passa nógu vel upp á það hvernig við höldum utan um þennan hóp. Ég hef heyrt því miður ófá dæmi um að hinsegin fólk hafi — hinsegin karlmenn hafa t.d. oft þurft að gista í sömu í rýmum, í herbergi með öðrum karlmönnum og verða þar fyrir árásum og jafnvel misnotkun sökum kynferðis síns. Við heyrðum hér áðan hvað Samtökin '78 hafa að segja um þetta frumvarp og hvaða áhrif það mun hafa á þennan hóp. Mig langar líka að segja að Samtökin '78 eru með alveg ótrúlega flott prógramm í gangi fyrir þennan hóp og eru að styðja hann þrátt fyrir lítið fjármagn. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég vona að við tökum vel á móti hinsegin flóttafólki svo það spyrjist út því við eigum að vera stolt af því að bjóða þennan hóp velkominn (Forseti hringir.) því það er aldrei nóg af hinsegin og kynsegin fólki á Íslandi.