Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Klessuklúður, þetta er fallegt nýyrði. Við lærum fullt af nýyrðum í þessari viku. Mig langaði aðeins að ræða frasa sem við heyrum dálítið oft hér inni. Dómsmálaráðherra og aðrir hv. þingmenn nota oft þann frasa: að tilefnislausar umsóknir stoppi okkur frá því að taka á móti — og nú nota ég orð ráðherra, með leyfi forseta — fólkinu sem við viljum taka á móti. Í einhverjum tilfellum hafa líka verið notuð orðin: Fólkinu sem er í neyð. Fólkinu sem við viljum taka á móti, fólkinu sem er í neyð.

Þess má geta að eftir að ráðherra lét þau ummæli falla að mikið væri um tilefnislausar umsóknir kom fram fyrirspurn frá hv. þingmanni, ef ég myndi nú hver það var, um það hversu margar þessar tilefnislausu umsóknir væru. Ef ég man rétt voru það níu umsóknir af 4.600 sem Útlendingastofnun mat tilefnislausar. Ég veit nú ekki hvernig þessar níu umsóknir stoppuðu okkur í að taka á móti fólki. Alla vega hefði ég haldið að níu af 4.600 væri nú ekki mjög mikil stífla.

Mig langar samt að tala aðeins meira um þessa frasa sem eru notaðir. Byrjum á fólkinu sem er í neyð. Hvaða fólk er það sem er í raunverulegri neyð? Ég spyr: Er það fólk að flýja stríð? Er það fólk að flýja ofsóknir? Er það jafnvel fólk að flýja mansal? Já, frú forseti. Ég myndi telja að öll þessi þrjú skilyrði uppfylli fólk sem er í raunverulegri neyð. Það er ekki bara ég sem tel það, heldur er það nákvæmlega skilgreiningin, bæði í flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 37. og 38. gr. laga um útlendinga, sem ekki er verið að breyta neitt hér. Það er fólkið í neyð. Eins og ég hef komið inn á í fyrri ræðum þá fellur stærsti hluti þeirra sem hingað koma undir þessa skilgreiningu.

En tölum líka um frasann: Fólkinu sem við viljum taka á móti. Þetta er dálítið athyglisverð orðanotkun. Hvaða fólki viljum við taka á móti? Ég spyr mig: Er það fólk í neyð, eða er það bara ákveðið fólk sem er í neyð? Ég ætla þá að vona að það hverjum við viljum taka á móti sé ekki eins og á tímum seinni heimsstyrjaldar og stuttu þar á eftir, þar sem t.d. ríkisstjórn Íslands vildi ekki taka á móti — tölum ekki um flóttamenn, tölum heldur um hermenn sem komu hingað þegar ríkisstjórn Íslands vildi bara taka á móti kristnum hvítum hermönnum en ekki neinum af annarri trú eða öðrum litarhætti svo að hinn íslenski kynstofn hlyti ekki skaða af.