Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar aðeins að halda áfram að tala um frasa. Það er nefnilega þannig, eins og ég hef bent á áður, að við virðumst vera voða dugleg, sérstaklega í þessu máli, að nota ákveðna frasa til að alhæfa og kannski villa sýn fyrir þeim sem hafa ekki sömu innsýn inn í kerfið. Annar frasi sem dómsmálaráðherra og hv. stjórnarþingmenn nota oft er að það sé svo mikið um að fólk sé að misnota kerfið. En hvað er misnotkun á kerfinu? Það er góð spurning og ég reyndi aðeins að fara í gegnum þessi mál og spyrja sjálfan mig hvað gæti verið misnotkun á kerfinu.

Nú, eins og ég kom inn á áðan, ef misnotkun á kerfinu eru tilhæfulausar umsóknir þá voru þær 9 af tæplega 5.000. Já, kannski er það misnotkun en það er alla vega ekki stór misnotkun og alla vega ekki þannig að það falli undir þann frasa að mikið sé um að fólk sé að misnota kerfið.

Það næsta sem mér datt í hug var hvort það að sækja um hæli frá löndum þar sem ekki geisar stríð, það sem ég fór í hér áðan, sem hv. þingmenn kalla stundum efnahagsflóttamenn — þá er það bara þannig að það er ekkert hægt. Þau geta ekki misnotað kerfið vegna þess að umsóknum þeirra er öllum hafnað. Ég benti á að árið 2021, sem er síðasta árið sem eru til nákvæm gögn um, sóttu tíu um frá Albaníu og tíu var hafnað. Það er ekki misnotkun af því að þau sjá einfaldlega svart á hvítu að það eru ekki opin landamæri, sem er nú enn einn frasinn sem menn nota.

Ef misnotkun er það að óska eftir efnislegri meðferð sinna mála þá er það ekki misnotkun, það er grundvallarréttur fólks á flótta að geta skýrt út af hverju það falli undir 37. og 38. gr. útlendingalaga. Þessar greinar eru nær beint upp úr flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Já, það virkar bara allt alþjóðakerfið þannig að allir þeir sem hafa skrifað undir flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga að vera með ferli til að taka á móti fólki sem uppfyllir skilyrði 37. og 38. gr. og fara með það í efnislega meðferð. Ég get ekki séð að það sé misnotkun á kerfinu.

Ef þau sem sækja hingað telja að mannréttindi þeirra, t.d. vegna þess að þau eru hinsegin eða kynsegin, verði best vernduð með því að flýja land þar sem þau eru ofsótt en fá vernd hér til þess að vera hinsegin og kynsegin, þá kalla ég það nú ekki misnotkun, ég tel það bara hrós fyrir Íslendinga, enda höfum við tekið á móti kvótaflóttamönnum sem uppfylla þessi skilyrði frá hinum ýmsu löndum sem við höfum annars ekki tekið á móti flóttamönnum frá.

Það er nefnilega mikilvægt ef hv. þingmenn ætla að tala um misnotkun á kerfinu að við fáum gögn frá ráðuneytinu sem sýni svart á hvítu hversu mikil þessi misnotkun raunverulega er, ekki bara einhverja frasa sem hv. þingmenn vita að spila upp í hlustendur Útvarps Sögu.