Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held ég þurfi ekki að upplýsa virðulegan forseta um það, og ég lofa að vera stuttorður, að við höfum verið að biðja um að hæstv. ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson mæti hér og ræði við okkur efnislega. En rétt eins og kollegi minn var ég að skoða aðeins á Facebook og komst að því að hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, og hæstv. félags og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, og hv. þingmenn Vinstri grænna hafa boðað til svokallaðs súpufundar með félagsmönnum sínum til að ræða einmitt útlendingamálin. Þau hafa boðað til þessa fundar á laugardaginn kl. 11–13. Þetta þykir mér ansi furðulegt, að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar virðast ekki geta komið og talað um þessi mál hér innan veggja Alþingis heldur ætla að gera það einhvers staðar úti í bæ og bjóða svo upp á súpu og brauð gegn vægu gjaldi.