Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[13:50]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil nú byrja á því að leiðrétta þingmanninn, það er ekki 10 milljarða niðurskurður á fjárframlögum til samgangna á þessu ári heldur var framkvæmdum seinkað um sem nemur 3 milljörðum, það var fært yfir á milli ára. Það er ekki niðurskurður heldur seinkun á fjármagni til að vinna gegn þenslu í samfélaginu.

Varðandi síðan félagið Betri samgöngur sem var stofnað hér á þinginu þá hefur það með það að gera að stýra uppbyggingunni á höfuðborgarsáttmálanum, öllum þeim verkefnum sem þar eru og það kemur kannski engum á óvart að ýmsar hækkanir hafi orðið núna á síðustu misserum. Almenn hækkun sem hefur orðið á verkefnum er 30–40% vegna, eigum við ekki bara að segja stríðsins í Úkraínu og þeirrar þenslu sem er víða í heiminum og hækkana á hrávöru þannig að það hefur auðvitað spilað inn í ýmsa þætti sem varða framkvæmdir Betri samgangna. Það er líka augljóst að þegar lagt var af stað voru menn með frumhugmyndir sem síðan hafa farið í frekari hönnun og smátt og smátt skýrist betur hver kostnaðurinn er. Hann hefur vaxið allnokkuð og núna eru til að mynda áform uppi um að breyta Sæbrautarverkefninu allnokkuð eins og hv. þingmaður kom inn á. Slík ákvörðun yrði alltaf tekin og borin undir annars vegar stjórn Betri samgangna og hins vegar stýrihóp sem í sitja bæði ráðherrar og forsvarsmenn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Menn þurfa auðvitað að horfa til lands og sjá hvernig hægt er að fjármagna þetta innan þess ramma. (Forseti hringir.) Menn taka auðvitað ekki slíkar ákvarðanir bara út í loftið og þessar umræður og viðræður hafa þegar átt sér stað.