Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

greinargerð ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Nú hefur um nokkurt skeið verið gerð tilraun til þess að fá greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol opinberaða. Var tekin endanleg ákvörðun í hv. forsætisnefnd þann 5. apríl 2022 þess efnis að niðurstaða forsætisnefndar væri að opinbera skyldi þessa greinargerð án takmarkana. Enn þann dag í dag, 1. febrúar 2023, hefur það ekki verið gert og vekur það nokkra furðu. Vekur það einnig furðu mína að ekki sé búið að birta þessa ákvörðun á heimasíðu Alþingis, eins og segir í 6. gr. reglna um störf og starfshætti forsætisnefndar Alþingis þar sem segir að birta skuli ákvarðanir forsætisnefndar á síðunni, en umrædd ákvörðun hefur ekki verið birt. Hvað veldur því, hæstv. forseti, að þessi greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, hefur ekki verið birt? Nú hefur umræddur maður borið vitni í dómsal (Forseti hringir.) og ég held að við hljótum þá að þora að fara að birta þessa greinargerð eins og forsætisnefnd tók ákvörðun um fyrir ári síðan.