153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur varðandi það að við gerum hlé á umræðu um útlendingamál að sinni og fáum málið aftur inn til nefndar. Það höfum við gert nú þegar einu sinni eftir að málið var tekið út. Það er alvanalegt að það sé brugðið á það ráð þegar mál eru í svona hnút, sérstaklega þegar stjórnarliðar sjálfir eru að kalla eftir frekari umræðu inni í nefndinni. Það kom fram nánast í byrjun ræðu hv. flutningsmanns nefndarálits að málið hefði þegar verið kallað inn til milli 2. og 3. umr., um leið og við byrjuðum að ræða þetta hérna í 2. umr. Samt sem áður eftir heila viku af umræðu hafa stjórnarliðar ekki fengist til að greina okkur frá því hvað það er sem þau hafa hugsað sér að skoða eða breyta í málinu. (Forseti hringir.) Þau vilja ekki upplýsa þingið um það hvaða breytingum þetta frumvarp kemur til með að taka í nefndinni. (Forseti hringir.) Hvernig er hægt að ætlast til þess að umræða hérna verði lýðræðisleg og efnisrík þegar þau halda bara (Forseti hringir.) einhverri leynd yfir þessum mögulegu breytingum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)Hvaða vinnubrögð eru þetta eiginlega?