Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var að reyna að muna hvert ég var kominn áður en ég tók smá reiðiræðu hér áðan um það hversu skelfileg vinnubrögð meiri hlutinn og forseti eru að nota hér á næturfundum. Mig minnir að ég hafi verið kominn í 22. gr. barnasáttmálans. Ég var búinn að tala um 1. mgr., sem var um að aðildarríkin skyldu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar réttarstöðu fái bæði viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð. En 2. mgr. barnasáttmálans fjallar einnig um börn á flótta og það er mikilvægt að hafa hana líka í huga þegar verið er að horfa á ákveðin ákvæði í þessu frumvarpi og einnig ákveðin brot Útlendingastofnunar á þessari málsgrein. Með leyfi forseta ætla ég að lesa 2. mgr. Hún dálítið lengri en sú fyrsta en ég vona að virðulegur forseti og hv. þingmenn nái að fylgjast með. Í 2. mgr. stendur:

„Í þessu skyni skulu aðildarríki veita Sameinuðu þjóðunum, svo og öðrum hæfum milliríkjastofnunum eða stofnunum, sem ríki eiga ekki aðild að, er hafa samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar, alla þá samvinnu er þau telja að við eigi, í viðleitni þeirra til að vernda og aðstoða börn sem þannig er ástatt um, og við að leita uppi foreldra barns sem er flóttamaður, eða aðra í fjölskyldu þess, til að afla upplýsinga sem þörf er á til að fjölskyldan geti sameinast. Þegar ekki er unnt að hafa uppi á foreldrum eða öðrum í fjölskyldunni skal veita barni sömu vernd og hverju því barni ber sem til frambúðar eða tímabundið nýtur ekki fjölskyldu sinnar, hver sem ástæða þess er, eins og kveðið er á um í samningi þessum.“

Virðulegi forseti. Hér stendur alveg svart á hvítu að það sé mjög mikilvægt að taka vel utan um þau börn, sérstaklega þau sem koma ein síns liðs til lands og að það þurfi að hjálpa til við að leita upplýsinga um foreldrana og reyna að aðstoða þau við að sameina fjölskylduna og ef ekki er unnt að hafa upp á foreldrunum skuli veita barni vernd.

Enn og aftur langar mig að benda á dæmið um drenginn sem kom hér 16 ára gamall til Íslands en var rétt fyrir jól vísað til Grikklands þrátt fyrir að hafa verið barn sem kom hingað eitt síns liðs. Útlendingastofnun beið einfaldlega þangað til að hann náði 18 ára aldri og vísaði honum úr landi sem fullorðnum einstaklingi. Þetta er skýlaust brot á þessari 2. mgr. og er verknaður sem ég hreinlega skil ekki að nokkur einstaklingur, nokkur hv. þingmaður eða nokkur íbúi Íslands, geti bara samþykkt að sé réttlátur. Myndum við virkilega vilja láta fara þannig með okkar börn ef þau væru á flótta einhvers staðar annars staðar í heiminum?

Virðulegi forseti. Ég á nokkrar greinar eftir í barnasáttmálanum sem mig langar að fara í áður en ég fer í næsta sáttmála og óska því eftir að komast aftur á mælendaskrá.