Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:15]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Hvert var ég komin? Já, ég var komin að jafnræðisreglunni, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Þessi jafnræðisregla sem ég held svo rosalega mikið upp á, og vona að öll stjórnvöld haldi upp á, skyldar stjórnvald til að gæta að samræmi og jafnræði og er ætlað að koma í veg fyrir mismunun. Hugmyndin að baki jafnræðisreglunni er að tryggja fyrirsjáanleika og samræmi í framkvæmd og koma í veg fyrir mismunun, eins og ég hef komið inn á áður. Hún er grundvallarregla í stjórnsýslurétti og hún er lögfest í 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Virðulegi forseti. Mismunun fer ekkert alltaf gegn jafnræðisreglunni. Mismunun kann að styðjast við málefnaleg og hlutlæg sjónarmið þannig að ekki sé um brot á reglunni að ræða. Kynjakvótar eru t.d. jákvæð mismunun í skilningi þessara laga. Talað er um beina og óbeina mismunun og bein mismunun er t.d. þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af einhverri ástæðu. Síðan er það óbein mismunun þegar, að því er virðist, hlutlaus skilyrði, viðmið eða ráðstöfun koma verr við einstakling í einum hópi borið saman við einstakling í öðrum hópi nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.

Virðulegi forseti. Þetta hljómar bara nákvæmlega eins og 6. gr. í útlendingafrumvarpinu sem við erum að ræða núna þegar kemur að því að svipta umsækjendur um alþjóðlega vernd grunnþjónustu. Þetta er bara nákvæmlega það. Þetta er bara óbein mismunun. Horfum á á ásetninginn á bak við setningu þessa lagaákvæðis, þessarar 6. gr., sem hefur verið gagnrýnt margoft af mannréttindasamtökum, af stofnunum, en ásetningurinn á bak við það er bara sá að hrekja þennan tiltekna hóp burtu, úr landi, með því að svipta hann allri grunnþjónustu. Aðferðafræðin, til að kanna hvort brotið hafi verið gegn jafnræðisreglunni, er sú að þú bara spyrð þig nokkurra spurninga. Þetta er ekki eins auðvelt og klippt og skorið og ég læt það hljóma. En í fyrsta lagi þá spyr maður sig: Eru tilvikin sambærileg? Í öðru lagi spyr maður: Er meðferð þeirra mismunandi eða er aðstöðumunur á þeim. Og síðan við mismununina þá spyrðu þig að lokum: Er hann réttlætanlegur? Það kann að vera að ég sé kannski bara að þylja upp eitthvert bull hér uppi í pontu. Kannski finnst sumu fólki ég bara vera að þylja upp eitthvað bull bara til þess að vera að tala uppi í pontu. En svo er ekki. Út af því að þar er ég að setja þetta í samhengi þá meikar þetta í alvörunni ótrúlega mikinn sens.

Og já, forseti, þú veist hvað er að gerast núna: Það er hæstaréttardómur sem kallast Ásatrúarfélagið. Tilvikin í þeim hæstaréttardómi voru ekki talin sambærileg og því reyndi ekki á jafnræðisregluna. Ásatrúarfélagið það höfðar mál þar sem íslenska þjóðkirkjan fengi aukin framlög á við önnur trúfélög. En það var litið til þess að þjóðkirkjan hefði sérstaka stöðu samkvæmt stjórnarskrá og sérstakar skyldur lögum samkvæmt og því væri ekki um sambærileg tilvik að ræða og því ekki um mismunun að ræða.

Virðulegi forseti. Finnst þér þetta í alvörunni ekki setja hlutina betur í samhengi? Ég veit ekki hverjum ég á að þakka. Ég þakka Hæstarétti, held ég, eða Grágás. Ég þakka Grágás fyrir að gera námið mitt og vinnuna mína auðveldari með því að kynna hugtakið dómafordæmi fyrir borgurum. En nóg um það. Við erum ekki hér til þess að tala um lögfræði að öllu leyti.

En réttaráhrif þess við brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar getur haft í för með sér skaðabætur fyrir aðila máls eða ógildingar á ákvörðuninni. Segjum sem svo að við komumst að því að þessi 6. gr., sem varðar sviptingu á grunnþjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd, sé talin brot á jafnræðisreglu. Þá líta stjórnvöld — afsakið orðalagið — bara frekar asnalega út og þurfa að ógilda ákvörðun sína. Og eftir að þau eru búin að taka allt í burtu frá þeim þá þurfi þau að gefa það þeim aftur.

Virðulegi forseti. Eigum við ekki bara að láta staðar numið hér og segja: Við viljum ekki að það komi til þess og því ætlum við bara að taka þetta ákvæði út sem hefur margoft verið gagnrýnt af mörgum umsagnaraðilum.

Ég sé að ég er að renna út á tíma og því bið ég um að fá að komast aftur á mælendaskrá til að ljúka máli mínu.