Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mér er mjög minnisstæð 6. gr. þessa frumvarps sem gengur út á að taka alla þjónustu af fólki sem einhverra hluta vegna er ekki hægt að flytja úr landi eftir að það hefur fengið lokasynjun á umsókn sinni. Ég var að kynna hér til sögunnar, áður en tími minn var á þrotum, skýrslu Rauða krossins um aðstæður einstaklinga sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum. Þessi skýrsla lá fyrir áður en þetta mál fór í 2. umr. og eiginlega með ólíkindum að þetta hafi ekki verið nóg til að snúa hug meiri hlutans frá þessu fráleita ákvæði. En í ljósi þess að þetta hefur greinilega ekki náð eyrum stjórnarliða þá tel ég rétt að lesa þetta upp hér, þessa mikilvægu skýrslu sem Rauði krossinn gerði um stöðu þessa hóps, sem með samþykkt frumvarpsins stendur til að stækka allverulega. Í skýrslunni stendur, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn á Íslandi stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga og vinnur að málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í samvinnu við stjórnvöld og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Að gefnu tilefni hefur félagið skoðað sérstaklega aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum.“

Rauði krossinn hefur tekið viðtöl við „alls 15 umsækjendur í framangreindri stöðu og fengið að litast til um líf þeirra og möguleika á Íslandi. Hefur félagið sérstaklega skoðað hvers konar úrræði lög um útlendinga nr. 80/2016 (hér eftir útlendingalög) og reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 hafa að geyma fyrir framangreindan hóp. Í lokin verða svo lagðar til nokkrar tillögur til úrbóta. […]

1. Takmarkanir á veitingu bráðabirgðadvalar- og -atvinnuleyfis.

Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. útlendingalaga er heimilt að beiðni útlendings sem fengið hefur endanlega synjun um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi, sem kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu, að veita honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til synjunin kemur til framkvæmda. Eitt skilyrðanna fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu er að finna í b-lið 1. mgr., þ.e. að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er. Í 1. málsl. 2. mgr. 77. gr. segir svo að heimilt sé að víkja frá skilyrði b-liðar 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á, t.d. þegar ósanngjarnt eða ómögulegt er að ætlast til þess að umsækjandi framvísi fullnægjandi skilríkjum. Á heimasíðu Útlendingastofnunar er þó vakin athygli á því að framangreind undanþága eigi ekki við hafi umsækjandi fengið endanlega synjun á umsókn sinni um hæli og beri honum þá að afla sér skilríkja.

Líkt og fram kemur hér að framan eru alls 64 einstaklingar sem fengið hafa lokasynjun í máli sínu og ekki er unnt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum. Umsækjendur í slíkri stöðu geta þó sótt um framangreint bráðabirgðadvalarleyfi en með því opnast sá möguleiki fyrir umsækjendur að sækja um tímabundið atvinnuleyfi í þann tíma sem bráðabirgðadvalarleyfið gildir, sbr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Hafi umsækjandi ekki vegabréf meðferðis er slíku dvalarleyfi þó synjað, enda hefur Útlendingastofnun metið sem svo að annars konar skilríki, þó svo að um frumrit sé að ræða, séu ekki talin nægileg sönnun fyrir því hver umsækjandi er.

Til þess að umsækjendur geti lagt fram vegabréf hjá Útlendingastofnun og sannað frekar á sér deili þurfa þeir að ferðast í næsta sendiráð og sækja um ný vegabréf. Næsta írakska sendiráð, sem og hið nígeríska eru staðsett í Svíþjóð en til að ferðast til Svíþjóðar þarf umsækjandi að fá útgefið sérstakt ferðabréf frá Útlendingastofnun (stundum Laissez-Passer). Verulega erfitt hefur reynst fyrir umsækjendur að fá slíkt ferðabréf útgefið sem gerir það að verkum að þeir geta ekki fengið útgefin vegabréf og þar af leiðandi ekki fengið bráðabirgðadvalar- og -atvinnuleyfi. Verða þessir umsækjendur þá fyrir því að festast hér á landi réttindalausir og án möguleika á að framfæra sjálfum sér. Þá segir í 7. mgr. 77. gr. útlendingalaga að bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu geti ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Vegna skorts á úrræðum fyrir framangreinda einstaklinga hafa þeir setið fastir hér á landi svo árum skiptir í lagalegri óvissu og án réttinda en slíkt getur haft óafturkræfar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu þeirra og velferð.“

Þetta er alveg rétt og við höfum oft heyrt að fólk hefur lýst þessum aðstæðum sem fangelsi. Þetta er það. Fólk er fast hér án þess að geta framfleytt sér að neinu marki, án þess að geta farið, án þess að geta bætt líf sitt með neinum hætti og án þess að vita hvenær þessu limbói lýkur.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að komast aftur á mælendaskrá.