Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held hér áfram umfjöllun minni um barnasáttmálann. Síðast var ég í 22. gr. en næst langar mig að stinga niður í 24. gr. Merkilegt nokk er þetta frumvarp væntanlega ekki að brjóta gegn þessari grein vegna þeirrar undantekningar sem bent hefur verið á um það að fella ekki niður þjónustu gagnvart börnum. Ef lesin er 1. mgr. 24. gr. þá virðast ráðuneyti og hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafa verið meðvituð um þessa grein en í henni stendur, með leyfi forseta:

„Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.“

Já, virðulegur forseti. Ef börnin væru ekki sérstaklega undanþegin sviptingu á þjónustunni þá væri verið að brjóta gegn þessari grein. Það sama á við um d-lið 2. mgr. sömu greinar, en þar er fjallað um að tryggja þurfi mæðrum viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir og eftir fæðingu. Þetta er aftur eitthvað sem kemur beint inn á þessa undanþágu, að það er ekki verið að svipta börn eða mæður eða ófrískar konur réttindum sínum til þjónustu, jafnvel þótt þeim hafi verið neitað um alþjóðlega vernd.

28. gr. tengist nákvæmlega sama sviptingarlið í frumvarpinu, en þar stendur einmitt, með leyfi forseta:

„Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra …“

M.a. skal koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geta notið ókeypis. Og aftur: Hér lásu höfundar barnasáttmálann og ekki virtist vera vandamál að framfylgja þessum greinum, en í hinum greinunum sem við höfum verið að benda á virtist eitthvað skorta á þekkingu þeirra sem sömdu frumvarpið og þeirra sem fjölluðu um frumvarpið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Mig langar að hvetja hv. þingmenn sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd til að fara á námskeið hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, en þau hafa einmitt nýtt ungmennaráðið sitt til að kenna barnasáttmálann og það sem kemur fram í honum. Það er gert á mjög skemmtilegan og fræðandi hátt af ungu fólki. Ég veit að ein af þeim sem hafa séð um þá kennslu sat hér á þingpöllum fyrr í kvöld og getur eflaust frætt okkur þingmenn um meira en við vitum um þennan sáttmála.

Virðulegi forseti. Ég ætla mér næst að fjalla um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er góð ástæða til þess vegna hluta sem gerðust hér í desember, þannig að ég óska eftir því að komast aftur á mælendaskrá.