Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:39]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Frú forseti. Í gær fór hæstv. dómsmálaráðherra í ræðustól Alþingis og gerði lítið úr þeim áhyggjum þingsins sem viðraðar hafa verið vegna fyrirhugaðrar sölu á flugvél Landhelgisgæslunnar. Hann talaði um það í ræðustóli Alþingis að mun hagkvæmari leið væri að leita til Isavia og vélar sem Isavia býr yfir.

Virðulegi forseti. Þessi leið einfaldlega er ekki rétt, hún er ekki hagkvæmari, hún snýr að þjóðaröryggi lands og ríkis og þjóðar. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða þegar hæstv. ráðherra stígur hér í ræðustól Alþingis og talar um að það sé hagkvæmari leið að fá vél Isavia sem er ekki með þeim búnaði sem vél Landhelgisgæslunnar býr yfir varðandi leit og vöktun og það nauðsynlega hlutverk sem vélin og mannskapurinn hefur yfir að ráða. Það er einfaldlega óboðlegt að koma hér fyrir þingið (Forseti hringir.) og lýsa því yfir að það sé hagkvæmari leið að leita til Isavia. Það er einfaldlega rangt og hún vegur að þjóðaröryggi okkar, þessi nálgun, og ég efast um að stjórnarþingmenn allir séu sammála þessari leið hæstv. ráðherra.