153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

aukinn fjöldi andláta á Íslandi.

[15:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt, sem hv. þingmaður dregur hér fram, dauðsföll eru hlutfallslega fleiri en við höfum verið að horfast í augu við undanfarin ár og fleiri en í venjulegu árferði. Ég hef bara séð svör sóttvarnalæknis sem heldur utan um þessar upplýsingar og er einmitt að skoða þessar spurningar sem hv. þingmaður setur hér fram: Hvað veldur? Hver er orsökin? Það eru fleiri þjóðir að skoða þetta. Við sjáum það núna að það eru að koma óvenju svæsnar sýkingar, holskefla af alls konar sýkingum sem við höfum verið að fylgjast með. Það eru auðvitað uppi, ég veit ekki hvort rétt er að segja tilgátur, en það þarf að skoða hvaða áhrif það hafði að stoppa samfélagið eins og við gerðum og annars staðar í heiminum. Þetta verðum við allt að setja í samhengi áður en við getum fullyrt um einhvers konar niðurstöður. Ég þarf að eiga þetta samtal og spyrja sömu spurninga á okkar næsta fundi, við eigum fasta fundi, ég og sóttvarnalæknir, en ég hef ekki náð að taka þetta mál sérstaklega upp við sóttvarnalækni. En allt það sem hv. þingmaður kemur inn á veit ég að er í skoðun og mun verða skoðað. En það þarf líka að skoða það í samhengi við allt þetta tímabil sem við erum að fara í gegnum og það sem á eftir fylgir og svo það sem er í venjulegu árferði, ef við getum kallað það svo, og það sem er að raungerast í okkar heimi og hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.