153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

hækkun verðbólgu.

[15:37]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Verðbólgan geisar og bæði ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa farið þvert gegn yfirlýstum markmiðum og ýtt undir verðbólguna með aðgerðum sínum. Ef við byrjum á ríkisstjórninni eru vísitöluhækkanir skatta og gjalda sem urðu um áramótin og eru taldar líklegar til að valda stýrivaxtahækkunum á miðvikudaginn til komnar vegna hækkana sem ríkisstjórnin sjálf hefur valdið. Að ríkisstjórnin skuli valda þjóðinni slíkum skaða á tímum sem þessum með óhóflegum krónutöluhækkunum á opinberum gjaldskrám er fyrir neðan allar hellur. En burt séð frá því þarf ríkisstjórnin að eiga samtal við Seðlabankann um rökin fyrir því að þessar hækkanir valdi vaxtahækkunum því þau rök ganga einfaldlega ekki upp. Þessi aukna verðbólga vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar er einskiptishækkun. Sú hækkun er þegar orðin og mun ekki valda frekari hækkun á verðbólgu héðan af. Vaxtahækkun vegna þessara hækkana mun því ekki slá á eitt eða neitt á nokkurn hátt.

En það sem er enn verra er að allar aðgerðir Seðlabankans eru verðbólguhvetjandi og ganga þannig þvert gegn yfirlýstum markmiðum sínum ásamt því að auka byrðar heimilanna svo hrikalega að mörg þeirra munu aldrei bera þess bætur. Fyrirtækin í landinu skulda nefnilega 5.500 milljarða. Hver einasta prósentuhækkun stýrivaxta kostar þau 55 milljarða og Seðlabankinn hefur sexfaldað vexti á rúmu ári. Aukinn vaxtakostnaður fyrirtækja er því um 275 milljarðar. Fyrirtæki sækja þennan aukna kostnað að sjálfsögðu til neytenda með því að hækka verð sem aftur veldur enn meiri verðbólgu. Þetta er ekki flókið og ríkisstjórnin hefur svakalega mikinn skilning á þessu lögmáli þegar rætt er um bankaskatt. En þegar kemur að því að láta fjármálafyrirtækin græða á meðan heimilin blæða virðast hvorki ríkisstjórnin né Seðlabankinn skilja nokkurn skapaðan hlut. Þetta er meiri kostnaður fyrir fyrirtækin en kjarasamningar kosta þau jafnvel þótt ýtrustu kröfum verkalýðshreyfingarinnar hefði verið mætt. Ég spyr því hvort ríkisstjórninni og Seðlabankanum sé virkilega alvara um að ná niður verðbólgu eða er tilgangurinn sá að hlaða undir fjármálafyrirtækin og gera eins mörg heimili og hægt er að þrælum þeirra? Því þannig er raunveruleikinn sem blasir við öllum sem vilja sjá.