153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

fundarstjórn forseta.

[15:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er orðinn svolítið hvimleiður ávani hjá hæstv. forseta að vera sífellt og endalaust að setja ofan í við það sem hv. þingmenn, þjóðkjörnir þingmenn þessa lands, leyfa sér að segja í pontu. Þetta er orðin einhver viðtekin venja; í hvert skipti sem fulltrúi stjórnarandstöðunnar stígur í pontu þá fær hann einhvers konar ávirðingar í lokin þar sem gert er lítið úr orðum viðkomandi þingmanns. Ég verð að biðja hæstv. forseta um að láta af þessum ósið af því að þetta setur þingið niður. Hér á Alþingi Íslendinga sitja 63 þjóðkjörnir einstaklingar sem allir hafa sitt málfrelsi og eiga að fá að koma hingað upp til að tjá skoðanir sínar á hinu og þessu sem á sér stað hér eða sem varðar fundarstjórn forseta.