153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

fundarstjórn forseta.

[15:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanna og bendi forseta á að þetta var svona efsökun; hafi hann sagt eitthvað sem „la la la la la“ þá biðjist hann afsökunar. Það væri kannski athugunarvert að forseti skoðaði nákvæmlega hvað hann sagði með tilliti til þess sem var verið að gera hérna og meti það bara skýrt hvort viðkomandi athugasemd forseta hafi verið viðeigandi eða ekki — ekki eitthvað „hafi ég“ og afsökunardót.

Annað sem er búið að vera að ræða hérna er einmitt að það er alvanalegt einhvern veginn að við erum að fá slæm svör. Við erum orðin vön því að fá engin svör. Ég velti því fyrir mér hvort þetta óundirbúna fyrirspurnaform sé orðið úrelt því að þetta snýst einhvern veginn um að ráðherrar geti bara talað úr sér loftið í þrjár mínútur án þess að svara neinni spurningu. Ég spurði forsætisráðherra hvernig hún ætlaði að axla ábyrgð. Það var ekkert svar, það var ekki einu sinni reynt (Forseti hringir.) að svara því. Ég held við ættum að endurskoða aðeins hvað er í gangi með það hvernig við förum með þennan dagskrárlið og að við gerum það alvarlega.