153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

fundarstjórn forseta.

[16:00]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að taka undir með þeim þingmönnum sem hafa komið hingað upp. Mér finnst alveg með ólíkindum hvað ráðherrar þessarar ríkisstjórnar eru duglegir og góðir í að koma sér undan því að svara óþægilegum og erfiðum spurningum sem beinast að þeim. Ég horfði á þessa óundirbúnu fyrirspurn frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni og það sem hann fékk frá hæstv. forsætisráðherra voru einmitt einhver ekki-svör og hún náði því mjög vel og veigraði sér við að svara þessari fyrirspurn. Því langar mig bara að rifja upp orð hæstv. forsætisráðherra, jafnvel þó að ég geti ekki vísað beint í þau, í umræðum um útlendingalög árið 2017, áður en hún myndaði þessa agalegu stjórn með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, þar sem hún segir orðrétt að það eigi að taka mark á umsögnum umsagnaraðila á borð við Rauða krossinn og UNICEF. Því spyr ég: Hvað hefur breyst núna þegar hæstv. forsætisráðherra situr í þeim stól sem hún situr í? Hvers vegna tökum við ekki mark á umsagnaraðilum lengur? Skiptir það bara ekki máli?