153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

fundarstjórn forseta.

[16:01]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa komið hér á undan mér varðandi það að við séum ekki að fá svör frá hæstv. ráðherra undir þessum dagskrárlið sem þó er einmitt ætlaður til þess. Hér var hæstv. forsætisráðherra spurð hvernig hún og hennar ráðuneyti mannréttinda ætlaði að axla ábyrgð ef aðvaranir umsagnaraðila um þetta útlendingamál verða að raunveruleika. Svarið var ekki neitt. Svarið var að við þyrftum að fara að ræða það hvernig á að taka á móti fólki. Það sem er algerlega glöggt fyrir mér á svörum hæstv. forsætisráðherra er það sem ég hef óttast hérna og hefur rætt um frá upphafi, þ.e. að fólk veit ekki hvað það er að samþykkja. Þið vitið ekki hvað þið eruð að samþykkja — ég segi þetta með fullri virðingu — vegna þess að ef þið vissuð það þá trúi ég því ekki að þið væruð að hleypa þessu hér í gegn, hæstv. forsætisráðherra.