Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Enn á ný kem ég hingað upp til að ræða leyndina yfir greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, um Lindarhvol þrátt fyrir ákvörðun forsætisnefndar um að hún skyldi birt. Munum að Lindarhvoll var fenginn til að selja milljarðaeignir sem ríkið fékk vegna stöðugleikasamkomulags eftir bankahrunið. Forseti Alþingis neitar að birta greinargerðina þrátt fyrir lögfræðiálit óháðs lögmanns um að ekkert í henni sé þess eðlis að sérstakur trúnaður eigi að ríkja. Á sama tíma og greinargerðin er í felum hjá forseta Alþingis mætti Sigurður í opið þinghald í héraðsdómi og gaf býsna greinargóða vitnaskýrslu. Sagði hann að illa hafi gengið að fá afhent nauðsynleg gögn frá Lindarhvoli um sölu á eignum almennings. Bar Lindarhvoll við bankaleynd þrátt fyrir að um væri að ræða rannsókn ríkisendurskoðanda, sérlegs eftirlitsmanns Alþingis. Einnig kom fram í vitnisburði Sigurðar að hann hafi metið það að eignin Klakki hafi verið seld á 530 milljónum undir eignarvirði. Eftir standa orð hans, herra forseti, um erfiðleika embættis Ríkisendurskoðunar við að fá afhent gögn hjá stjórnvöldum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem embættið greinir svo frá, en Ríkisendurskoðun hefur einfaldlega ekki þau tæki og tól sem títtnefnd rannsóknarnefnd Alþingis hefur til að kalla eftir gögnum og kalla fólk í skýrslutökur. Lög um rannsóknarnefndir Alþingis veita slíkri nefnd sömu heimildir og lögregla hefur við meðferð sakamála en stjórnvöld virðast draga það í lengstu lög og jafnvel sleppa því alveg að veita þessu mikilvæga embætti upplýsingar. Þessu, herra forseti, verðum við að breyta en jafnframt hætta að leyfa stjórnarmeirihlutanum hér á þingi að koma í veg fyrir að settar verði á fót rannsóknarnefndir (Forseti hringir.) á vegum Alþingis til að rannsaka ýmis mál sem stjórnarmeirihlutinn vill að verði áfram í leynum.