Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[15:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki, þótt þörf væri á, að ræða um þessa kolsvörtu skýrslu Ríkisendurskoðunar um laxeldið, enda veit ég að hæstv. ráðherra mun verða í Kastljósi í kvöld og segja okkur allt frá því. En ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjávarútvegs- og matvælaráðherra fyrir að vera hér með okkur í dag og taka þátt í þessari umræðu. Mig langar að byrja á því að hefja hana á smá yfirsýn og vangaveltum um byggðakvótann svokallaða. Mér finnst ekki úr vegi að tala um hann þar sem ég veit að 5.400 tonnum hefur verið úthlutað sérstaklega til þess og markmiðið var að tryggja í rauninni afkomu veikbyggðra sjávarbyggða í kringum landið. Þá liggur næst við að spyrja: Hvað er SFS, gamla góða LÍÚ, að landa miklu af byggðakvótanum annars staðar en þar sem honum var ætlað að styðja við viðkvæmar sjávarbyggðir? Blóðtakan er slík að byggðunum er hreinlega að blæða út. Stórútgerð samþjöppunar sem kinnroðalaust sölsar undir sig allt lífsviðurværi þessara viðkvæmu sjávarbyggða, sem á árum áður voru fullkomlega sjálfbærar í rekstri sínum þar sem þeim var ekki meinaður aðgangur að nálægum auðugum fiskimiðum. Það er orðið ansi hart, virðulegi forseti, þegar þessi fiskigarkar stórútgerðarinnar stjórna hreinlega búsetuþróun hringinn í kringum landið. Þess vegna væri ekki úr vegi að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það hve stóran hluta byggðakvótans SFS er raunverulega að taka til sín.

Sem dæmi: Byggðakvóta var úthlutað til Þingeyrar sem Bergey átti að veiða, en raunin er sú að stórir togarar hirtu megnið af byggðakvótanum sem að megninu til hefur síðan verið unninn í Kópavogi. Byggðakvótinn á Suðureyri fer að stærstum hluta á skip, Gunnvöru, sem gert er út frá Ísafirði. Byggðakvótinn frá Djúpavogi fór á norska auðmenn sem eru í fiskeldi. Hvernig má það vera að byggðakvóta sé úthlutað til fyrirtækja í eigu erlendra aðila? Þetta var gert þvert á lög, en þegar loks komst upp um lögbrotið þá var kvótinn færður yfir til fyrirtækis í eigu innlendra aðila sem gerði í kjölfarið verktakasamning við fyrirtæki sem áður hafði ólöglega fengið úthlutað téðum kvóta. Sem sagt: leppun, eins og þar stendur. Telur ráðherra forsvaranlegt að byggðakvóti renni í jafn miklu magni og raun ber vitni til stórútgerðar? Er slíkt verklag ekki beinlínis að grafa undan markmiði byggðakvótans, þ.e. að vernda sjávarbyggðirnar?

Í öðru lagi vil ég tala um mikilvægi strandveiða fyrir viðkvæma sjávarbyggðir. Það vita allir sem vita vilja hversu nauðsynlegar strandveiðar eru fyrir hinar viðkvæmu byggðir. Hávært ákall hefur verið eftir því að tryggja þótt ekki væru nema þessa margumtöluðu 48 daga sem við höfum verið að berjast við núna allt síðasta kjörtímabil að reyna að tryggja í sessi, 12 daga á mánuði — 12 daga á mánuði í þrjá mánuði. En þeir fá ekki einu sinni að velja tímann sjálfir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað veldur? Og í raun og veru, þar sem hæstv. ráðherra ber náttúrlega höfuð og herðar yfir nákvæmlega málaflokkinn akkúrat núna: Hvað er því til fyrirstöðu? Í stað þess, eins og virðist vera samkvæmt þessum hópi sem hæstv. ráðherra skipaði, samkvæmt svokölluðum drögum sem snúa meira og minna að einhverju félagslegu, þá virðist eiga að tryggja nákvæmlega — hlutdrægir aðilar sem voru þarna, talsmenn stórútgerðarinnar í meiri hluta, gerðu lítið annað en að reyna að telja okkur trú um það í þessum drögum sínum hversu glæsilegt það væri nú hreinlega að stórútgerðin fengi að hirða til sín þessi 5,3% af heildarúthlutun aflaheimildanna.

Af því að tíminn flýgur nú svo hratt og ég er samt að reyna að tala mjög hratt en ég er verða búin með tímann þá skulum við tala líka um togveiðarnar. Það var í áraraðir sem verið var að berjast fyrir því að ná dragnót og stórum togurum með mikla aflagetu og stórum vélum og stórum trollum og öðru slíku út fyrir 12 mílur. Nú hins vegar á með einu pennastriki að henda þessu öllu haugana. Nú á hvorki meira né minna en að heimila þessum stærri aflmeiri skipun að draga hreinlega, eins og ég sagði hérna á dögunum, upp í hjónarúm, en ég meinti náttúrlega bara hreinlega upp í kálgarð, en það er nú allt í lagi.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er eiginlega alveg búinn. Ég get ekki einu sinni farið í vigtunina sem ég ætlaði að tala um, sem er nú eins ósanngjörn eins og hún mögulega getur verið. Þar er þrískipt kerfi. Það má segja í rauninni að útgerð sem stendur bæði að veiðum og vinnslu vigtar fyrir sig sjálf. Hún selur sjálfri sér, kaupir af sér aflann og kemur honum svo fyrir einhvers staðar erlendis og stór hluti af gjaldeyrinum fær ekki að koma til okkar og nýtast okkur að einu eða neinu leyti, fyrir utan það að núna … (Forseti hringir.) — Þarna var ég hálfnuð, hæstv. ráðherra. Við verðum bara að endurtaka þetta eftir hálftíma. (Matvrh.: Eða bara stöðugt.) — Stuð.