sjávarútvegsmál.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Eins og kemur fram í inngangi hennar verðskuldar þessi umræða alveg örugglega margar sérstakar umræður og ég treysti því að hv. þingmaður muni gefa mér tækifæri til að ræða þessi mál hér oftar. En svo ég haldi mig við efni umræðunnar, í fyrsta lagi varðandi byggðakvótann og þá umræðu, þá er mjög mikilvægt að sá hluti leyfilegs heildarafla, þ.e. þessi 5,3% sem tekin eru frá fyrir verkefni af þessu tagi, nýtist sem allra best til þess að gera það sem í upphafi stóð til; að styrkja minnstu sjávarbyggðirnar sem hafa átt hvað erfiðast með að aðlagast breytingum í sjávarútvegi og þá ekki bara þeim breytingum sem stafa af fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu heldur líka vegna tækniþróunar, vegna stærðarhagkvæmni og annarra slíkra þátta. Þetta eru allt saman áskoranir. Það hafa auðvitað orðið margvíslegar breytingar á smærri sjávarbyggðunum frá því að núverandi kerfi var komið á fót og það þarf að gæta að þeim breytingum og meta með hvaða hætti þessar ráðstafanir uppfylla þær væntingar sem lagt var upp með til að byrja með.
Ég vil nefna strandveiðar, af því að hv. þingmaður nefnir þær. Þeim var komið á í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009 og aldrei hefur verið ráðstafað stærri hluta leyfilegs heildarafla í þorski til strandveiða eins og á síðasta fiskveiðiári. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að verð væri afbragðsgott þá þurfti Fiskistofa að stöðva veiðarnar í júlí þar sem potturinn var tómur, þ.e. sá afli sem hafði verið ráðstafað þar til. En ég vil halda því til haga, af því að það hafa verið brögð að því að ekki hafi verið gætt að nákvæmni í þessari umræðu, að enginn sjávarútvegsráðherra síðustu 14 ár hefur forgangsraðað strandveiðum eins hátt eins og gert var á síðasta ári og það er töluleg staðreynd. Ég legg áherslu á að við vöndum okkur í því að fara rétt með staðreyndir í þessari umræðu.
Hv. þingmaður spyr sérstaklega um vigtun sjávarafla og enn og aftur er það algerlega efni í sérstaklega sérstaka umræðu að tala um mikilvægi þess að eftirlit sé samræmt í landinu hvað þetta varðar. Ég verð að segja það, ég hef ekki mikla reynslu af sjósókn, að það kom mér á óvart hversu lítið samræmi er á milli svæða og á milli sveitarfélaga hvað þetta varðar. Það leiðir auðvitað af sér alls konar vandræði ef vigtun er með einum hætti í einu sveitarfélaginu en með allt öðrum hætti í öðru sveitarfélagi. Þetta er erfitt fyrir atvinnulífið. Þetta er erfitt fyrir þær stofnanir ríkisins sem eiga að samhæfa eftirlit og þessi áskorun, svo það sé líka nefnt, er ekki bara í vigtun sjávarafla heldur líka í nánast öllu eftirliti sem bútað er niður í mismunandi sveitarfélögum, við getum nefnt heilbrigðiseftirlit, byggingareftirlit og margt mætti hér áfram telja. Það er á hendi Fiskistofu að hafa eftirlit með þessari vigtun. En þessi tillaga sem lýtur að því að samræma vigtunina er ein af þeim sem er vikið að í bráðabirgðatillögum Auðlindarinnar okkar, sem hv. þingmaður vék aðeins að. Það er rétt að geta þess að þær tillögur eru bráðabirgðatillögur og ég hef lagt á það áherslu að þær séu til umræðu og opinnar umfjöllunar og að þar hefur ekki verið tekin afstaða til efnis eða innihalds einstakra tillagna, enda eru þær sumar þannig að þær eru ekki samrýmanlegar, þ.e. ef ein er samþykkt þá er ekki hægt að samþykkja hina.
Hv. þingmaður víkur líka sérstaklega að veiðarfærum og við vitum auðvitað að áhrif veiðarfæra eru mjög misjöfn og við vitum að stór botndregin veiðarfæri eru þung og það þarf mikið afl til að draga þau og við vitum að netalínur geta skorið þara og í net geta fest sig fuglar og selir og við vitum að meiri hlutinn af plastrusli á botninum er gömul veiðarfæri. Við vitum af þessu öllu saman. En við vitum líka að við þurfum verulega á auknum rannsóknum að halda hvað þetta varðar og jafnframt að það er mikil nýsköpun og þróun í gangi í þróun veiðarfæra. Við vitum að við þurfum að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar varðandi vernd viðkvæmra vistkerfa og viðkvæmra hafsvæða en við vitum líka að okkur skortir upplýsingar hvað þetta varðar og að þar er mikilvægt að efla verulega rannsóknir.