sjávarútvegsmál.
Herra forseti. Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi um land allt og leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi, en hann er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Það er því mikilvægt að gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Það er einnig mikilvægt að tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs svo greinin haldi áfram að vaxa á grundvelli sjálfbærrar nýtingar fiskstofna.
Í ljósi minnkandi fyrirsjáanleika í heimsmálum, eins og við höfum upplifað undanfarin ár, er enn mikilvægara en áður að sjávarútvegurinn hafi sveigjanleika í tilhögun veiða. Með öflugum sjávarútvegi vex einnig nauðsynleg nýsköpun og vöruþróun. Grundvöllur arðsemi sjávarútvegs mun byggja á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Þessi ákjósanlega staða er þó eilífðarverkefni. Það verður að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnarkerfisins. Við verðum að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar í ljósi þess hver gæði íslenskrar fiskvöru eru fyrir stöðu greinarinnar á heimsmarkaði. Fyrir utan mikilvægi ákveðinnar festu í regluumgjörðinni verður að meta árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.
Forseti. Á undanförnum áratugum hefur verið gripið til ýmiss konar aðgerða til að gera íslenskan sjávarútveg sjálfbæran og arðbæran þannig að óvíða í heiminum er sjávarútvegur rekinn á eins hagkvæman hátt. Þessi eftirsóknarverða staða varð ekki til úr engu heldur byggir hún á rannsóknum og ákvörðunum út frá staðreyndum þeirra. Allar breytingar á kerfinu sem til umræðu eru verða að skoðast með þetta til hliðsjónar.