Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[15:59]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Sé raunverulegur vilji fyrir hendi að styrkja byggð hjá þeim sveitarfélögum sem búa við fólksflótta vegna þess að kvótinn hefur horfið þá er lykilatriði að þær aðgerðir sem gripið er til stuðli að því að byggðirnar verði í því samhengi sjálfbærar. Tímabundnar aðgerðir eins og byggðakvóti eru í eðli sínu það, tímabundnar. Til að við getum náð árangri er lykilatriði að fólk geti gert áætlanir til lengri tíma frekar en skemmri. Þær aðgerðir sem við grípum til þurfa að stuðla að því frekar en að draga úr stöðugleika. Allt of oft hefur það gerst með lausnir eins og byggðakvóta að hann hverfur frá bæjarfélaginu og nýtist því ekki sem skyldi. Miklu frekar væri að skoða lausnir eins og frjálsar handfæraveiðar.

Við höfum líka ekki efni á því lengur að skoða ekki hvaða áhrif þær aðgerðir sem við grípum til hafa á umhverfi og loftslag. Við verðum að tryggja það, enda hefur skammsýn nálgun á togveiðar á viðkvæmu lífríki fjarða haft skelfilegar afleiðingar. Það hefur sýnt sig að afleiðingarnar af því að hafa ekki í huga umhverfi og loftslag hafa komið niður á möguleikum byggða til sjálfbærni.

Ég vil því nota tækifærið og spyrja ráðherra: Er ekki tryggt að þær aðgerðir sem gripið verður til muni stuðla að stöðugleika hjá þeim sem búa á umræddum svæðum og verða hagsmunir hvað varðar umhverfi og loftslag hafðir í huga þegar kemur að útfærslu þeirra aðgerða?