Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[16:01]
Horfa

Halldóra K. Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegurinn og þau störf sem hann skapar hafa skipt sköpum fyrir byggðir um allt land í marga áratugi. Ýmsar byggðir hér á landi hafa reitt sig á sjávarútveginn til að halda sér gangandi. Iðnaðurinn útvegar störf sem er meginstoð þess að fólk vilji og geti lifað í hverju samfélagi fyrir sig. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að það sé markmið hennar að viðhalda og fjölga störfum í fámennari byggðum og ekki veitir af því. Flutningur sjávarútvegsiðnaðar frá smærri byggðarlögum eða mikill samdráttur getur skilið þau eftir í lamasessi sem við verðum að forðast. Við ætlum að standa vörð um fámennar byggðir, efla þær og stuðla að jafnvægi milli byggða í sveiflukenndum iðnaði. Mikilvægasta verkfæri okkar í þessum verkefnum er byggðakvótinn. Byggðakvóti styður við byggðarlög sem hafa lent í áföllum vegna breytinga á aflamarki eða samdráttar í sjávarútvegi. Einnig heldur hann heimildum í byggð og kemur í veg fyrir að iðnaðurinn hverfi úr samfélögunum. Markmiðið er að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að ítreka mikilvægi byggðakvótans nógu oft. Kvótinn hefur reynst fámennari byggðum á landsbyggðinni lífsnauðsynlegur í mörgum tilvikum, byggðum sem geta vart verið samkeppnishæfar við stærri samfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu eins og staðan er í dag og þá sérstaklega varðandi atvinnutækifæri. Það er ljóst að allir eiga að njóta góðs af sjávarauðlindum okkar og það hefur lengi átt við um byggðir utan höfuðborgarsvæðisins. Með byggðakvóta getum við tryggt atvinnutækifæri á sviði sjávarútvegs í fámennari byggðum, haldið þeim í byggð og tryggt fjölbreytt störf með tilkomu mikillar grósku í nýsköpun í sjávarútvegi.