sjávarútvegsmál.
Frú forseti. Ég þakka málshefjanda hv. þm. Ingu Sæland fyrir að opna á þessa umræðu og ég verð að segja að mér þykir fagnaðarefni að fleiri flokkar en Viðreisn láti sig málið varða, umbætur í sjávarútvegskerfinu. Það er ekkert launungarmál að umgjörð þessarar mikilvægu atvinnugreinar hefur verið grundvöllur ósættis og deilna áratugum saman og það kemur ekki síst niður á viðkvæmum sjávarbyggðum. Þetta er stórmál. Við byggjum lífsgæði okkar að stórum hluta á fiskveiði og sölu afurða, bæði hér á landi og á erlendum mörkuðum. Þess vegna er lífsspursmál að eyða pólitískri óvissu og ósætti sem ríkir um nýtingu þjóðarauðlindarinnar. Lausn okkar í Viðreisn er í rauninni einföld: Við viljum að nýtingarrétturinn sé tímabundinn og að markaðsgjald sé greitt fyrir aðgang að auðlindinni.
Tímabindingin er nauðsynleg til að tryggja að hér ríki ekki varanlegur einkaréttur á nýtingu auðlindar sem tilheyrir allri þjóðinni og markaðsgjaldið tryggir að afgjaldið sé gegnsætt, skýrt og í samræmi við verðmæti auðlindarinnar hverju sinni. Við náum báðum þessum markmiðum og sláum tvær flugur í einu höggi með því að setja 5% af heildarkvótanum á markað á hverju ári, boðinn upp með nýtingarrétti til 20 ára í senn. Markaðurinn sér um að greitt sé hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Allir eru jafnir fyrir kerfinu og öllum heimill aðgangur að uppboðinu sem uppfylla á annað borð þau skilyrði að geta gert út á Íslandsmiðum. Flest ár myndi þetta skapa ríkissjóði auknar tekjur og þess vegna leggjum við til að settur sé á fót sérstakur uppbyggingarsjóður til að efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig tryggjum við að byggðir landsins sem standa að baki verðmætasköpun sjávarútvegsins og íbúar þeirra byggða njóti ágóðans.